Til stendur að hægja á boðun nýrra fanga í afplánun sem eru á boðunarlista, sem eru hátt í 700, og fækka allt að sex stöðugildum fangavarða vegna fjárskorts. Settur fangelsismálastjóri segir stöðuna slæma og formaður Fangavarðafélags Íslands segir að fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir muni auka óöryggi fangavarða.
80 milljóna króna halli er á rekstri Fangelsismálastofnunar og í dag fundaði Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, með starfsfólki stofnunarinnar þar sem hann kynnti tillögur að hagræðingu.
Birgir segir í samtali við mbl.is að hátt í 700 manns séu á boðunarlista í afplánun en ein hagræðingartillagan snýr að því að hægja á boðun fanga í afplánun.
„Að ná fram aukinni hagræðingu þýðir það að fækka föngum í fangelsi,“ segir Birgir aðspurður.
Birgir segir ekki ólíklegt að þetta muni hafa þau áhrif að dómar muni í auknum mæli fyrnast. Fleiri glæpamenn gætu því sloppið við afplánun.
„Þetta getur haft áhrif á fyrningu refsingar og það er mjög slæm niðurstaða,“ segir Birgir.
En þetta þýðir þó ekki að enginn nýr fangi verði boðaður til afplánunar á næsta ári. Hins vegar verður 10-20% fækkun á boðun nýrra fanga í afplánun. Meðalbiðtími eftir afplánun mun því lengjast enn frekar, en á síðasta ári var meðalbiðtíminn hátt í tvö ár.
„Plássin verða ekki eins vel nýtt, við getum ekki fullnýtt plássin,“ segir Birgir og útskýrir að hagræðingin í því felist aðallega í minni starfsmannakostnaði.
Kostnaður við uppihald á föngum sé óverulegur.
Tillögurnar lúta meðal annars að fækkun stöðugilda fangavarða um fimm og hálft til sex.
Birgir segir að þetta séu ekki beinlínis uppsagnir heldur sé litið til þess að endurráða ekki fólk sem er með stutta ráðningarsamninga og er í afleysingum. Hann nefnir líka að einn starfsmaður hætti störfum á miðju ári og tveir starfsmenn fari í fæðingarorlof en enginn kemur í staðinn fyrir þá.
„Þannig samanlagt eru þetta – þegar allt telst til – svona fimm og hálft til sex stöðugildi á ársgrundvelli,“ segir Birgir.
Aðrar tillögur lúta til dæmis að því að breyta vaktakerfi fangavarða til þess að ná fram hagræðingu.
„Þetta er náttúrulega bara galið því það mun vera mikill öryggisbrestur að fækka stöðugildum og láta þá sem sitja eftir hlaupa hraðar,“ segir Heiðar Smith, formaður Fangavarðafélags Íslands, í samtali við mbl.is.
„Stjórnvöld verða að bregðast við og setja miklu meiri peninga í þetta. Það þýðir ekki endalaust að setja peninga í allt sem tengist þessu í kerfinu eins og inn í auknar rannsóknarheimildir hjá lögreglu og ný dómstig eins og Landsrétt, sem verður til þess að þeir ná fleiri glæpamönnum, og setja svo aldrei neinn pening aukalega inn í afurðina sem mun koma til með að hýsa þá sem eru dæmdir,“ segir Heiðar.
Birgir segir að hallareksturinn útskýrist ekki síst af því að aukið álag sé í fangelsum á Íslandi sem valdi því til dæmis að starfsmannakostnaður hefur aukist.
„Þetta eru allt saman tillögur sem eru settar fram og það á að reyna hrinda þessu í framkvæmd. Við verðum að reyna ná endum saman. Þetta er áhyggjuefni fyrir okkur öll,“ segir Birgir.