Hæstiréttur hefur þyngt refsingu yfir konu sem ók próflaus undir áhrifum slævandi lyfja. Áður höfðu bæði Héraðsdómur Norðurlands eystra og Landsréttur, komist að þeirri niðurstöðu að konan skyldi eingöngu dæmd til greiðslu sektar, en samkvæmt dómi Hæstaréttar skal konan einnig svipt ökuréttindum í sex mánuði.
Ríkissaksóknari óskaði eftir því að málið yrði tekið fyrir í Hæstarétti, þar sem talið var að refsingin á lægri dómstigum væri of væg.
Hæstiréttur samþykkti málskotsbeiðnina á þeim forsendum málið kynni að hafa verulega þýðingu í skilningi laganna þegar kæmi að akstri undir áhrifum slævandi lyfja.
Konan, sem áður hafði verið svipt ökurétti, bakkaði á kyrrstæða bifreið í febrúar 2022 og við blóðsýnatöku kom í ljós að hún var undir áhrifum slævandi lyfja.
Héraðsdómur Norðurlands eystra sakfelldi konuna fyrir að keyra án ökuréttinda og undir áhrifum lyfja og var hún dæmd til að greiða 180.000 krónur í sekt. Var konan hins vegar ekki svipt aftur ökuréttindum sínum, sem hún hafði hlotið á ný í millitíðinni, af þeim sökum að hvorki var um að ræða áfengis- né vímuefnaakstur og hafði akstur hennar umrætt kvöld ekki verið mjög vítaverður.
Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms í mars 2024 og féllst á að akstur konunnar hefði ekki verið mjög vítaverður þegar slysið átti sér stað.
Ríkissaksóknari leitaði svo leyfis Hæstaréttar í apríl til að áfrýja dómi Landsréttar.
Í dómi Hæstaréttar segir að brot konunnar hafi verið þess eðlis, óháð öðru framferði hennar við aksturinn, að varhugavert var að hún stjórnaði vélknúnu ökutæki umrætt skipti. Með hliðsjón af umferðarlögum, dómafordæmum og sjónarmiðum um jafnræði og samræmi í viðurlögum við umferðarlagabrotum, þótti rétt að svipta konuna ökurétti í sex mánuði.