Hætt við að opna í Bláfjöllum

Til stóð að opna skíðasvæðið í Bláfjöllum í dag.
Til stóð að opna skíðasvæðið í Bláfjöllum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til stóð að opna skíðasvæðið í Bláfjöllum í fyrsta sinn á þessum vetri klukkan 14 í dag og var greint frá því á Facebook-síðu skíðasvæðisins snemma í morgun en þar sem bætt hefur verulega í vind á svæðinu og útlit er fyrir að hvessi enn frekar þegar líður á daginn verður lokað í Bláfjöllum í dag.

„Ég var rosalega kátur snemma í morgun en skjótt skipast veður í lofti. Vindinn fór að herða miklu fyrr en ég hélt svo við verðum að fresta opnuninni,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri skíðasvæðisins í Bláfjöllum, í samtali við mbl.is.

Veðurspáin fyrir morgundaginn er ekki góð en spáð er 10-18 m/s vindi með snjókomu eða slyddu. Um helgina er veðurútlitið ágætt og líkur eru á að skíðaunnendur geti fest skíðin á sig og rennt sér í brekkunum í Bláfjöllum.

Vonandi tekst að opna fyrir jól

„Ætli ég fari ekki bara í það núna að rasta allt svæðið upp aftur til að festa snjóinn sem er á ferðinni. Veðrið lítur betur út eftir morgundaginn og vonandi tekst okkur að opna skíðasvæðið fyrir jólin sem er hvatning fyrir skíðafólk að fara yfir skíðabúnað sinn og verða sér út um vetrarkort,“ segir Einar.

Honum finnst að hægt eigi alltaf að geta opnað skíðasvæðið fyrir jól með tilkomu snjóframleiðslukerfis sem tekið var í notkun í fyrra en í kerfinu eru átta snjóbyssur. Í fyrra var fyrsti opnunardagurinn 21. desember.

„95 prósent af snjónum á skíðasvæðinu er framleiddur snjór og við erum tilbúin til að opna ef veður leyfir,“ segir Einar en framleiðsla á snjó hefur verið í gangi í Bláfjöllum síðustu vikurnar.

Eins og sjá má í myndskeiðinu hér að neðan blés hressilega í Bláfjöllum í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert