Hanna Borg ráðin verkefnastjóri farsældar

Hanna Borg Jónsdóttir.
Hanna Borg Jónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hanna Borg Jónsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri farsældar á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. 

Síðastliðin fjögur ár hefur Hanna Borg starfað fyrir UNICEF á Íslandi sem verkefnastjóri Barnvænna sveitarfélaga UNICEF en verkefnið snýst um markvissa innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í starfsemi sveitarfélaga. Í gegnum verkefnið hefur hún starfað með þeim 23 sveitarfélögum sem að því vinna. Hanna Borg skrifaði barnabókina „Rúnar góði“ en bókin sem kom út árið 2016 kynnir börn fyrir réttindum sínum samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá kenndi hún í tvö ár námsgreinina Réttindasmiðju barna í 2.-7. bekk í Flataskóla sem er einn af réttindaskólum UNICEF. Þá kennir Hanna Borg réttindafræðslu í Flataskóla samhliða starfi sínu hjá UNICEF og kemur að kennslu í staðlotu diplómanáms um Farsæld barna hjá Háskóla Íslands, að því er fram kemur í tilkynningunni. 

Hanna Borg er með M.Ed. gráðu í kennslu samfélagsgreina frá menntavísindasviði Háskóla Íslands og meistarapróf í lögfræði frá sama háskóla. Þá er Hanna með LLM gráðu í mannréttindum frá University of London.

Hanna Borg hefur störf 1. febrúar 2025. 

Verið að framfylgja samningi sem var undirritaður í október

„Með ráðningu verkefnastjóra farsældar á höfuðborgarsvæðinu er verið að framfylgja samningi við mennta- og barnamálaráðuneytið um ráðningu verkefnastjóra sem leiða mun undirbúning að stofnun svæðisbundins farsældarráðs sem undirritaður var 10. október 2024.

Verkefnastjórinn mun vinna í nánu samstarfi við forsvarsmenn innleiðingar farsældarþjónustu í sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og leiða saman það fagfólk sem vinnur að málefnum barna í því skyni að undirbúa svæðisbundið farsældarráð. Samningurinn er gerður til tveggja ára og markmiðið er að fyrir lok samningstímans hafi farsældarráð landshlutans tekið til starfa og að unnin hafi verið fyrsta áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða í þágu farsældar barna,“ segir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert