Hæstiréttur hefur staðfest dóm Landsréttar þar sem Gareese Joshua Gray var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Atvikið átti sér stað í júlí 2021.
Gareese var ákærður fyrir nauðgun í september 2022 með því að hafa sest klofvega ofan á stúlku, haldið henni niðri og nuddað getnaðarlim sínum við andlit hennar þar til hann fékk sáðlát yfir það.
Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í málinu 8. febrúar 2023. Hann taldi að heimfæra ætti brot Gareese undir 209. gr. almennra hegningarlaga.
Þar segir: „Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en [fangelsi allt að 6 mánuðum] 1) eða sektum ef brot er smávægilegt.“
Landsréttur taldi hins vegar brot mannsins falla undir „önnur kynferðismök“ í 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en dómur Landsréttar féll 23. febrúar 2023.
Hæstiréttur tók fram að dómaframkvæmd hefði ekki verið fyllilega einhlít um heimfærslu háttsemi af þessu tagi. Rétturinn taldi að líta yrði til atvika í heild og aðstæðna hverju sinni.
Horfa yrði til þess að Gareese hefði verið klofvega yfir stúlkunni og varnað henni undankomu samtímis því að fróa sér nærri andliti hennar þangað til hann hafði sáðlát yfir það. Háttsemin fæli í sér misnotkun á líkama stúlkunnar og væri til þess fallin að veita honum kynferðislega útrás.
Var því talið að um hafi verið að ræða önnur kynferðismök í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.
Maðurinn var því dæmdur í tveggja ára fangelsi og til þess að greiða stúlkunni 2.000.000 krónur í miskabætur. Hann var enn fremur dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1,9 milljónir kr.