Það verður hæg breytileg átt á landinu fyrri partinn í dag og dálítil él en bjart suðaustantil. Gengur í norðan og norðvestan 10-18 m/s eftir hádegi, hvassast suðaustanlands. Það verða él á Norður- og Austurlandi en annars bjartviðri. Frost verður 0-7 stig, minnst við sjávarsíðuna.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að smálægð á Faxaflóa þokist suðaustur og kemur ekki meira við sögu í dag. En við Skotland er öflug og dýpkandi lægð á norðausturleið, sem veldur stífri norðan- og norðvestanátt í dag og hvössum vindstrengjum undir Vatnajökli.
Á morgun verður hæg breytileg átt og skýjað með köflum, en gengur í suðaustan 10-18 m/s undir hádegi með snjókomu eða slyddu, en rigningu við ströndina, fyrst suðvestanlands. Frost 1 til 10 stig, en frostlaust syðst.