Máttu ekki svíða grísaskrokk í Breiðholti

Grísirnir á myndinni tengjast fréttinni ekki beint.
Grísirnir á myndinni tengjast fréttinni ekki beint.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði „erlenda aðila“ við að svíða grísaskrokk utandyra í Breiðholti í dag. Létu þeir af verkinu eftir tiltal frá lögreglu en fram kemur í dagbók lögreglu að skrokkurinn hafi verið sviðinn á borði við leikskóla í hverfinu.

Ýmissa grasa kennir í dagbók lögreglunnar í dag. Þar á meðal er skráð að tilkynnt hafi verið um særða gæs á Álftanesi og að það hafi verið afgreitt af lögreglu. Þá velti maður golfbíl í Hafnarfirði og hlaut áverka á höfði eftir fallið. 

Lögreglumenn fóru í heimsókn að leikskólanum Langholti með Lúlla löggubangsa með í för og sungu jólalög. 

Þjófnaður og heimilisofbeldi

Ekki virðist lögreglan hafa sungið jólalög fyrir mikið fleiri sem hún hafði afskipti af í dag. Óvelkomnum aðila var vísað út úr stigahúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík. Lögregla stöðvaði einnig ökumann sem ók yfir á rauðu ljósi. Reyndist sá aka undir áhrifum fíkniefna. 

Tilkynnt var um þjófnað í verslun í Háaleitis- og Bústaðahverfi, einnig í Múlahverfi Reykjavíkur og einnig í Kópavogi. Í Garðabæ var tilkynnt um umferðaróhapp og í Kópavogi var ekið á hjólreiðamann. 

Í Árbæ var tilkynnt um heimilisofbeldi og einnig manneskju sem datt utandyra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert