Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra voru með mikinn viðbúnað síðdegis í gær vegna vopnaðs einstaklings sem sýndi af sér ógnandi hegðun.
Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra segir að lögreglu hafi tekist að yfirbuga viðkomandi en til þess var rafbyssu beitt í fyrsta skipti hér á landi og hafi aðgerðin gengið vel.
Fram kemur að áður hafi vægari aðferðum verið beitt til að draga úr ógnandi hegðun einstaklingsins en þær ekki borið árangur.
„Rafvarnarvopn hafa verið í notkun hjá íslensku lögreglunni frá því í byrjun september síðastliðnum. Frá því að það var tekið í notkun hefur það verið dregið úr slíðri eða ræst 29 sinnum í 17 málum að frátöldu máli gærdagsins,“ segir enn fremur í tilkynningunni.