Lögreglan þurfti í gær í fyrsta sinn að beita rafbyssu í aðgerðum sínum síðan að hún fór að ganga um með rafbyssur í september. Í þessu tilfelli þurfti að yfirbuga manneskju vopnaða hnífi.
Í ljósi atviksins í gær er ágætt að fara yfir hvað rafbyssur gera, aðdraganda þess að þær eru í notkun og viðhorf Íslendinga til notkunar lögreglunnar á þeim, en samkvæmt könnun Gallup eru Íslendingar hlynntir beitingu rafbyssna við slíkar aðstæður.
Lögreglan á Íslandi notast við rafbyssur af gerðinni Taser 10 (T10) sem eru framleiddar af Axon. Rafbyssurnar skjóta frá sér pílum sem gefa frá sér 22-44 rafpúlsa á sekúndu í fimm sekúndna hrinum.
Rafstraumurinn hefur tímabundin áhrif á viljastýrðar vöðvahreyfingar.
Í reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna var – fyrir breytingu – að finna heimild ríkislögreglustjóra til að heimila lögreglu notkun rafmagnsvopna í sérstökum tilfellum.
Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, undirritaði reglugerð undir lok árs 2022 sem heimilaði lögreglu að nota rafbyssur sem almennt valdbeitingartæki við störf sín.
Tilkynnti hann að ráðist yrði í þessar breytingar í aðsendri grein í Morgunblaðið 30. desember 2022, en hann tilkynnti ríkisstjórninni það ekki fyrir birtingu greinarinnar samkvæmt þáverandi forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur. Varð málið strax umdeilt meðal flokka eins og Vinstri grænna og Pírata.
Katrín Jakobsdóttir gerði athugasemd á fundi ríkisstjórnar í ársbyrjun 2023 um að málið hefði ekki verið kynnt innan ríkisstjórnar.
Á sama fundi var það bókað í fundargerð að Svandís Svavarsdóttir, þáverandi matvælaráðherra, óskaði eftir því að hún væri „andsnúin ákvörðun dómsmálaráðherra og gerði athugasemd við það hvernig málið hafði verið unnið.“
Aðeins menntaðir lögreglumenn, sem fengið hafa til þess þjálfun, eiga að bera rafbyssur og er mikið eftirlit með notkun þeirra m.a. í formi sjálfvirkra skráninga og sjálfvirkrar myndupptöku úr búkmyndavél. Tölfræði yfir notkun rafvarnarvopna og annarra valdbeitingatækja á að vera gerð opinber með reglubundnum hætti á vef lögreglu.
Gallup gerði í sumar könnun um afstöðu Íslendinga til notkunar lögreglunnar á rafbyssum. Fram kom að 51,1% Íslendinga væru hlynntir því að lögreglan bæri rafbyssur á sama tíma og 29,6% voru andvígir. Þá voru 19,3% hvorki né.
Einnig kom fram að 78,4% væru hlynntir því að lögreglan myndi beita rafbyssum ef aðili væri vopnaður hníf, eins og gerðist í gær. Má því áætla að flestir Íslendingar séu hlynntir beitingu lögreglunnar á rafbyssu í gær.
Lögreglan kallar rafbyssur „rafvarnarvopn“ en í daglegu tali er þó talað um rafbyssur og hafa fjölmiðlar einnig oftast gert það.
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, var spurður af mbl.is árið 2022 af hverju lögreglan talaði um rafvarnarvopn en ekki rafbyssur:
„Við höfum kosið að kalla þetta ekki byssur af því að við lítum þannig á að þetta sé ekki síst til að verja lögreglumenn, að þetta sé einskonar sjálfsvarnarvopn. En auðvitað er þetta notað til að yfirbuga það fólk sem stendur ógn á.“
Lögreglan sendi bréf á heilbrigðisstarfsmenn í sumar, sem mbl.is hefur undir höndum, til að upplýsa þá um hvernig eigi að meðhöndla sjúklinga sem hafa verið skotnir með rafbyssum.
„Einstaklingurinn finnur fyrir miklum sársauka og vöðvar viðkomandi herpast saman sem getur valdið því að einstaklingur fellur niður, eftir því hvar pílurnar hæfa en það er hluti af þjálfun lögreglumanna að taka tillit til öryggis í umhverfinu eins og frekast er unnt þegar rafvarnarvopninu er beitt,“ segir í bréfinu.
Fram kemur að einstaklingar, sem bera einkenni þess að vera með æsingsóráðsheilkenni [sturlunarástand og hækkaður líkamshiti] eftir að hafa verið skotnir með rafbyssu, þurfi að rannsaka vandlega.
„Ekki er ástæða til að ætla að óráð eða aukinn líkamshiti orsakist af beitingu rafvarnarvopnsins, heldur er ástæðan frekar t.d. áhrif vímuefna. Þau fáu dæmi um brátt andlát sem þekkt eru eftir beitingu rafvarnarvopna tengjast oft æsingsóráðsheilkenni,“ segir í bréfinu.
Engin gögn benda til þess að rafbyssur geti haft áhrif á gangráð eða ígrætt hjartastuðtæki, að er kemur fram í bréfinu.