Rafbyssur: Ágreiningur, áhrif og sturlunarástand

Jón Gunnarsson undirritaði reglugerð sem heimilaði lögreglu að nota rafbyssur …
Jón Gunnarsson undirritaði reglugerð sem heimilaði lögreglu að nota rafbyssur sem almennt valdbeitingartæki. Svandís Svavarsdóttir var andsnúin ákvörðuninni. Samsett mynd/Óttar/Eggert/Karítas

Lögreglan þurfti í gær í fyrsta sinn að beita rafbyssu í aðgerðum sínum síðan að hún fór að ganga um með rafbyssur í september. Í þessu tilfelli þurfti að yfirbuga manneskju vopnaða hnífi.

Í ljósi atviksins í gær er ágætt að fara yfir hvað rafbyssur gera, aðdraganda þess að þær eru í notkun og viðhorf Íslendinga til notkunar lögreglunnar á þeim, en samkvæmt könnun Gallup eru Íslendingar hlynntir beitingu rafbyssna við slíkar aðstæður.

Lög­regl­an á Íslandi not­ast við raf­byss­ur af gerðinni Taser 10 (T10) sem eru fram­leidd­ar af Axon. Raf­byss­urn­ar skjóta frá sér píl­um sem gefa frá sér 22-44 raf­púlsa á sek­úndu í fimm sek­úndna hrin­um.

Raf­straum­ur­inn hef­ur tíma­bund­in áhrif á vilj­a­stýrðar vöðva­hreyf­ing­ar.

Svandís var andsnúin ákvörðun Jóns

Í regl­um um vald­beit­ingu lög­reglu­manna og meðferð og notk­un vald­beit­ing­ar­tækja og vopna var – fyrir breytingu – að finna heim­ild rík­is­lög­reglu­stjóra til að heim­ila lög­reglu notk­un raf­magns­vopna í sér­stök­um til­fell­um.

Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, undirritaði reglugerð undir lok árs 2022 sem heim­ilaði lög­reglu að nota rafbyssur sem al­mennt vald­beit­ing­ar­tæki við störf sín. 

Jón Gunnarsson heimilaði notkunina.
Jón Gunnarsson heimilaði notkunina. mbl.is/Óttar

Tilkynnti hann að ráðist yrði í þessar breytingar í aðsendri grein í Morgunblaðið 30. desember 2022, en hann tilkynnti ríkisstjórninni það ekki fyrir birtingu greinarinnar samkvæmt þáverandi forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur. Varð málið strax umdeilt meðal flokka eins og Vinstri grænna og Pírata.

Katrín Jakobsdóttir gerði athugasemd á fundi ríkisstjórnar í ársbyrjun 2023 um að málið hefði ekki verið kynnt innan ríkisstjórnar.

Á sama fundi var það bókað í fundargerð að Svandís Svavars­dótt­ir, þáverandi mat­vælaráðherra, óskaði eft­ir því að hún væri „and­snú­in ákvörðun dóms­málaráðherra og gerði at­huga­semd við það hvernig málið hafði verið unnið.“

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, var ekki hlynnt ákvörðun Jóns.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, var ekki hlynnt ákvörðun Jóns. mbl.is/María Matthíasdóttir

Rúm­lega helm­ing­ur hlynnt­ur því að lög­regl­an beri raf­byssur 

Aðeins menntaðir lög­reglu­menn, sem fengið hafa til þess þjálf­un, eiga að bera rafbyssur og er mikið eft­ir­lit með notk­un þeirra m.a. í formi sjálf­virkra skrán­inga og sjálf­virkrar myndupp­töku úr búk­mynda­vél. Töl­fræði yfir notk­un raf­varn­ar­vopna og annarra vald­beit­inga­tækja á að vera gerð op­in­ber með reglu­bundn­um hætti á vef lög­reglu.

Gallup gerði í sumar könnun um afstöðu Íslendinga til notkunar lögreglunnar á rafbyssum. Fram kom að 51,1% Íslendinga væru hlynntir því að lögreglan bæri rafbyssur á sama tíma og 29,6% voru andvígir. Þá voru 19,3% hvorki né.

Einnig kom fram að 78,4% væru hlynntir því að lögreglan myndi beita rafbyssum ef aðili væri vopnaður hníf, eins og gerðist í gær. Má því áætla að flestir Íslendingar séu hlynntir beitingu lögreglunnar á rafbyssu í gær.

Lögreglan kallar rafbyssur „rafvarnarvopn“

Lögreglan kallar rafbyssur „rafvarnarvopn“ en í daglegu tali er þó talað um rafbyssur og hafa fjölmiðlar einnig oftast gert það.

Fjöln­ir Sæ­munds­son, formaður Lands­sam­bands lög­reglu­manna, var spurður af mbl.is árið 2022 af hverju lögreglan talaði um rafvarnarvopn en ekki rafbyssur:

„Við höf­um kosið að kalla þetta ekki byss­ur af því að við lít­um þannig á að þetta sé ekki síst til að verja lög­reglu­menn, að þetta sé einskon­ar sjálfs­varn­ar­vopn. En auðvitað er þetta notað til að yf­ir­buga það fólk sem stend­ur ógn á.“

Þeir sem eru skotnir finna fyrir miklum sársauka

Lögreglan sendi bréf á heilbrigðisstarfsmenn í sumar, sem mbl.is hefur undir höndum, til að upp­lýsa þá um hvernig eigi að meðhöndla sjúk­linga sem hafa verið skotn­ir með raf­byss­um.

„Ein­stak­ling­ur­inn finn­ur fyr­ir mikl­um sárs­auka og vöðvar viðkom­andi herp­ast sam­an sem get­ur valdið því að ein­stak­ling­ur fell­ur niður, eft­ir því hvar píl­urn­ar hæfa en það er hluti af þjálf­un lög­reglu­manna að taka til­lit til ör­ygg­is í um­hverf­inu eins og frek­ast er unnt þegar raf­varn­ar­vopn­inu er beitt,“ seg­ir í bréf­inu.

Fram kem­ur að ein­stak­lingar, sem bera ein­kenni þess að vera með æs­ing­sóráðsheil­kenni [sturlun­ar­ástand og hækkaður lík­ams­hiti] eft­ir að hafa verið skotn­ir með raf­byssu, þurfi að rann­saka vand­lega.

„Ekki er ástæða til að ætla að óráð eða auk­inn lík­ams­hiti or­sak­ist af beit­ingu raf­varn­ar­vopns­ins, held­ur er ástæðan frek­ar t.d. áhrif vímu­efna. Þau fáu dæmi um brátt and­lát sem þekkt eru eft­ir beit­ingu raf­varn­ar­vopna tengj­ast oft æs­ing­sóráðsheil­kenni,“ seg­ir í bréf­inu.

Eng­in gögn benda til þess að raf­byss­ur geti haft áhrif á gangráð eða ígrætt hjart­astuðtæki, að er kem­ur fram í bréf­inu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka