Spár benda til þess að raforkuverð muni hækka um 9% á milli 2024 og 2025, en frá í október á síðasta ári hefur raforkuverð hjá sölufyrirtækjum hækkað um 9-37%.
Uppbygging raforkukerfisins síðastliðin 15 ár hefur ekki verið í takt við uppbyggingu samfélagsins. Til að raforkuverð haldist lágt þarf að byggja hagkvæmar virkjanir og vera með skilvirka leyfisveitingaferla. Skortur á ákvörðunum hjá stjórnvöldum á síðustu árum geta leitt til frekari verðhækkana. Þá er rafmyntagröfur á hraðri útleið hér á landi.
Þetta kom fram á upplýsingafundi Landsvirkjunar í morgun.
Raforkuverð ræðst á markaði byggt á undirliggjandi þáttum. Á fundinum fór Haukur Ásberg Hilmarsson, sérfræðingur hjá Landsvirkjun, yfir það hvaða þættir hafa áhrif á verðið. Í máli hans kom fram að uppbygging raforkukerfisins hafi hvað mest áhrif. Til skemmri tíma geti náttúrulegir þættir haft áhrif, svo sem innrennsli í lón og hitastig. Einnig hafi eftirspurn áhrif.
Haukur Ásberg benti á að ekki hafi verið tekin skóflustunga að stórri aflstöð í tæp tíu ár. Á þessum tíma hafi íbúum landsins fjölgað um 50 þúsund.
„Uppbygging raforkukerfisins síðastliðin 15 ár hefur ekki verið í takt við uppbyggingu samfélagsins. Nú Landsvirkjun hefur ítrekað bent á þessa stöðu sem er á sjóndeildarhringnum. Greiningar bæði Landsvirkjunar en einnig Orkustofnunar og Landsnets og annarra aðila hafa sýnt fram á að raforkukerfið eins og það er í dag ræður ekki við vöxt samfélagsins án viðbótar fjárfestingar. Til viðbótar þá hafa stjórnvöld sett metnaðarfull markmið um orkuskipti. Á einhverjum tímapunkti kemur að því að þær góðu ákvarðanir sem við tókum í fortíðinni hætta að verða ráðandi í raforkuverði og skortur á ákvörðunum síðustu ár fara að skipta meira máli,“ sagði Haukur.
Til viðbótar við þessi langtímaáhrif benti Haukur á mjög slæma stöðu til skemmri tíma, en innrennsli í lón hefur verið í sögulegu lágmarki.
„Vatnafar hefur verið slæmt í um 18 mánuði. Vatnshæð í Þórisvatni [stærsta lón Landsvirkjunar á Suðurlandi] hefur aldrei verið jafn lág á sama árstíma og hún var í haust. Sem betur fer hefur staðan batnað lítillega síðan þá og er nú á svipuðum stað og í fyrra.“
Þá sagði Haukur gangsetningu á nýjum virkjunarkostum á Suðurlandi hafa tafist vegna kæruferla sem geri kerfið enn útsettara fyrir slæmum vatnsárum.
„Fjallað hefur verið um að hér sé sáttmáli samfélagsins um að raforkuverð á Íslandi eigi að vera stöðugt og lágt til almennings. Við getum kosið að halda í þau gildi sem að hér voru við lýði þegar raforkukerfið var byggt upp og taka skynsamar ákvarðanir um að byggja upp hagkvæmt raforkukerfi sem tryggir stöðugt raforkuverð til almennings,“ sagði Haukur er hann lauk umfjöllun sinni um stöðu mála í raforkukerfinu.
Jónas Hlynur Hallgrímsson, sérfræðingur hjá Landsvirkjun, fór yfir stöðuna á raforkuverði.
Benti hann á að forgangsorkuverð Landsvirkjunar hafi verið stöðugt og lækkað að raunvirði um 7% frá árinu 2006 til 2024. Á milli 2023 og 2024 hafi forgangsorkuverð Landsvirkjunar hins vegar hækkað um 5% á föstu verðlagi.
„Framboð hefur ekki haldið í við eftirspurn. Þessi verðhækkun er afleiðing þessa,“ sagði Jónas Hlynur.
Þá fór Jónas Hlynur yfir smásöluverð. Frá október á síðasta ári hefur raforkuverð hjá sölufyrirtækjum hækkað um 9-37%.
Samkvæmt Jónasi Hlyni hefur meðalraforkukostnaður heimilanna hækkað um 7% milli áranna 2023 og 2024.
Frágengin viðskipti á opnum raforkumarkaði benda til 9% hækkunar á nafnvirði á milli áranna 2024 og 2025. Samkvæmt Orkustofnun hefur verið gengið frá um 90% af orku fyrir almennan markað árið 2025
Almennur markaður er í forgangi hjá Landsvirkjun, að sögn Jónas Hlyns. Landsvirkjun framleiðir um 50-55% af þeirri orku sem almennir notendur þurfa.
Þá benti Jónas Hlynur á að raforkunotkun gagnavera hafi dregist saman um 60% frá síðasta ári. Sagði hann sölu Landsvirkjunar til gagnavera vera um þriðjung af því sem hún var árið 2022.
„Landsvirkjun hefur verið alveg skýr með það að við höfum viljað fasa út sölu á raforku sem fer í rafmyntagröft og frekar viljað selja til gagnavera sem sinna gagnavinnslu og flóknum reikniaðgerðum. Þannig að rafmyntirnar eru á hraðri útleið á Íslandi.“
Benti Jónas Hlynur á að fram undan séu krefjandi ár, 2025 og 2026, í raforkukerfinu.
„Það er mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að þessari vinnu sem tengist raforkuöryggi vegna þess að lítið framboð og vaxandi eftirspurn skapar enn þrengri stöðu. Til lengri tíma er mikilvægt að byggja hagkvæmar virkjanir og vera með skilvirka leyfisveitingaferla. Það tekur þrjú til fimm ár að byggja virkjun eftir að öll leyfi eru komin í hús,“ sagði Jónas Hlynur.