Strandarkirkja fékk óvæntan arf

Kirkjan hefur löngum þótt góð til áheita og fær nú …
Kirkjan hefur löngum þótt góð til áheita og fær nú arf. mbl.is/Ómar

Strandarkirkju í Selvogi tæmdist óvænt arfur á dögunum, þegar í ljós kom að eigandi og ábúandi jarðarinnar Stafnshóls í Deildardal á Höfðaströnd í Skagafirði arfleiddi kirkjuna að öllum sínum eigum, jörðinni og lausafé.

Bóndinn á Stafnshóli, Þórður Þorgilsson, var einstæðingur og átti enga lögerfingja og því frjálst að ánafna hverjum sem honum þóknaðist eigur sínar. Skv. heimildum Morgunblaðsins eru um 50 milljónir króna af lausafé í búinu. Þá er andvirði jarðarinnar ótalið.

Þetta varð ljóst þegar erfðaskrá Þórðar, dags. 26. júlí árið 2000, kom í leitirnar, en þar var mælt fyrir um að hann arfleiddi Strandarkirkju að öllum sínum eigum, þ.e. jörðinni Stafnshóli, húsakosti, lausafjármunum og bankabókum.

Sóknarnefnd Strandarsóknar hefur nýverið fengið leyfi sýslumanns til einkaskipta á dánarbúinu, en skv. upplýsingum frá Heimi Hannessyni samskiptastjóra þjóðkirkjunnar er búist við að jörðin verði boðin til sölu fljótlega að þeim loknum, væntanlega í byrjun næsta árs.

Mikill happafengur fyrir sóknina

„Þetta er mikill happafengur fyrir sóknina og mun koma að góðum notum,“ segir Heimir í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta mun gjörbreyta rekstrarumhverfi Strandarkirkju og gera henni mögulegt að sinna viðhaldi kirkjunnar í náinni framtíð,“ segir hann og nefnir að viðhaldskostnaður á kirkjunni sé hár en tekjur lágar. Þannig greiða aðeins 10 manns sóknargjöld til Strandarkirkju og námu þau tæplega 120 þúsund krónum í fyrra. Á sama ári var kostnaður vegna viðhalds og reksturs fasteigna ríflega 14 milljónir. Heildartekjur það ár voru rúmlega 9 milljónir. Þar af námu gjafir og áheit 6,6 milljónum í fyrra, en Strandarkirkja hefur um langan aldur þótt góð til áheita.

„Sem betur fer á Strandarkirkja margt velvildarfólk utan sóknarinnar,“ segir Heimir. „Það er örugglega engin kirkja á landinu sem fær jafn mörg áheit sem hlutfall af sóknargjöldum og Strandarkirkja, en áheitin voru um 55-föld sóknargjöld í fyrra.

„Það er mjög falleg og hlý tilhugsun að fólki þyki svona vænt um kirkjuna,“ segir Heimir.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert