Sjö ung börn á Húsavík greindust með salmonellu fyrr á þessu ári. Upphaflega var talið að hópsýkingin væri bundin við leikskólann Grænuvelli á Húsavík en síðar greindust tilfelli á fleiri landsvæðum og hjá fólki á ólíkum aldri.
Á tæplega fimm mánaða tímabili, frá janúar fram í maí, greindust alls 17 einstaklingar á aldrinum 0 til 78 ára með mónófasíska S. Typhimurium af sömu gerð.
Síðar kom í ljós að sama tegund salmonellu ræktaðist úr hálsaskinnssýnum úr kjúklingum við slátrun dýra frá kjúklingabúi hér á landi. Salmonellustofnar frá mönnum og alifuglum voru heilraðgreindir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala og reyndist um sama stofn mónófasískrar Salmonella Typhimurium ST34 að ræða.
Þetta kemur fram í lokaskýrslu stýrihóps sem skipaður var til að rannsaka hópsýkinguna.
Í skýrslunni segir að í lok janúar hafi sóttvarnalækni borist klínísk tilkynning frá Sjúkrahúsinu á Akureyri um salmonellu-greiningu hjá tveggja ára stúlku frá Húsavík. Fram kom að um fleiri tilfelli væri að ræða.
Upplýsingasöfnun væri hafin og umdæmis- og svæðislæknum sóttvarna á Norðurlandi tilkynnt um málið.
Um svipað leyti og rannsókn stóð yfir á Húsavík greindust tvö börn til viðbótar á leikskólaaldri án tengsla við Húsavík og búsett á Akureyri og í Reykjavík. Þá greindist 57 ára karlmaður í Hveragerði, eins árs drengur á Sauðárkróki, 78 ára karlmaður í Ölfusi, 27 ára kona í Hafnarfirði, þrítug kona á Hellu og 6 ára drengur í Reykjanesbæ.
Rannsókn var gerð á Húsavík og heilbrigðiseftirlitið rannsakaði aðstæður á leikskólanum, í eldhúsi og tók sýni af matvælum.
Mikið var um veikindi á meðal leikskólabarna í janúar og febrúar að sögn leikskólastjóra. Einkenndust þau af niðurgangi, uppköstum og hita.
Þar sem grunur var um matarborna hópsýkingu var kannað hvernig máltíðum leikskólans væri háttað. Heitur hádegismatur í leikskólanum kemur frá miðlægu eldhúsi sem sendir líka máltíðir til grunnskólans á staðnum og á bæjarskrifstofur. Sérstakt eldhús er einnig í leikskólanum þar sem morgunmatur og snarl eru útbúin.
Af þeim íbúum á Húsavík sem snætt höfðu aðsendar máltíðir frá miðlæga eldhúsinu fengu 41 einkenni iðrasýkingar, 32 leikskólabörn, átta í grunnskólanum og einn á bæjarskrifstofu.
„Niðurstöður sýkla- og veirurannsókna á saursýnum á sýkla- og veirufræðideild Landspítala leiddu í ljós að í janúar og febrúar 2024 greindust sex börn á leikskólanum í Húsavík, fædd 2020 eða 2021, með S. Typhimurium. Einnig greindust þrjú börn með rótaveiru en þar af var eitt barn með S. Typhimurium samhliða (mynd 1). Að auki greindist yngra systkini eins leikskólabarnsins í mars 2024 með sömu gerð S. Typhimurium. Því virðist hafa verið samhliða hópsýkingar eða smit af völdum rótaveiru og Salmonella í leikskólanum á þessum tíma,“ segir í skýrslunni.
Í símaviðtölum sóttvarnalæknis við foreldra barna sem greindust með salmonellu kom fram að börnin borðuðu öll hefðbundinn mat, þar með talið kjúkling og egg. Upphaflega lék grunur á að sýkingin gæti tengst matvælum eða sælgæti sem sérstaklega væri markaðssett fyrir börn. Ekki fundust staðfest tengsl við ákveðnar vörur.
Heilbrigðiseftirlitið (HNE) skoðaði aðstæður í eldhúsi leikskólans og var leikskólinn þrifinn í hólf og gólf. Tekinn var fjöldi sýna af matvörum en allar sýklaræktanir voru neikvæðar. Starfsfólk í eldhúsi skilaði saursýnum til rannsóknar sem reyndust neikvæð.
Salmonella greindist í hálsaskinnssýnum við slátrun kjúklingahóps á alifuglabúi hér á landi í byrjun apríl. Sýni voru fyrst neikvæð þegar þau voru tekin í eldi fyrir viðkomandi kjúklingahóp. Kjöt frá þessum kjúklingahópi var að hluta til komið á markað áður en niðurstaða lá fyrir og var því innkallað.
Tveir kjúklingahópar til viðbótar reyndust sýktir við slátrun en talið er að það hafi verið vegna krossmengunar frá fyrsta hópi. Annar jákvæði kjúklingahópurinn kom frá sama búi en þó öðru eldishúsi. Hinn jákvæði hópurinn kom af öðru búi frá sama framleiðenda.
Öll sýnataka í kjúklingahópum frá búinu, bæði í eldi og slátrun, hafði verið neikvæð m.t.t. salmonellu í langan tíma áður en þetta tilfelli kom upp. Tvisvar sinnum hefur salmonella greinst við slátrun á kjúklingum frá sama eldhúsi á búinu, í maí og ágúst. Afurðirnar fóru ekki beint á markað og því var ekki þörf á innköllun.
Víðtæk sýnataka hefur farið fram á bænum í umhverfi viðkomandi jákvæðra kjúklingahópa. Öll sýni hafa verið neikvæð.