Veittist að dóttur sinni og hótaði

Núverandi eiginkona mannsins kvaðst hafa orðið vitni að dóttur mannsins …
Núverandi eiginkona mannsins kvaðst hafa orðið vitni að dóttur mannsins hringja í móður sína að lokinni skýrslugjöf í héraði og heyrðist henni þær mæðgur vera að samræma framburð sinn í málinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að maður sæti skilorðsbundnu fangelsi til átta mánaða eftir brot í nánu sambandi gegn tveimur börnum sínum, syni og dóttur.

Málið varðar tvö brot sem áttu sér stað árið 2016 annars vegar og 2019 hins vegar. Árið 2016 veittist maðurinn að dóttur sinni á heimili þeirra, sló hana í andlitið og sparkaði í efri búk hennar með þeim afleiðingum að stúlkan hlaut sprungna vör, roða og eymsli í kringum rifbeinin.

Seinna brotið átti sér stað á sama stað árið 2019 þegar maðurinn hótaði dóttur sinni svo miklum barsmíðum að hún gæti ekki andað fyrir blóði færi hún ekki inn í herbergi sitt. Í kjölfarið hótaði maðurinn syni sínum barsmíðum.

Voru nýflutt til Íslands

Áður en þetta mál var tekið fyrir í héraðsdómi hafði dóttir mannsins lagt fram kæru gegn honum árið 2018. Í lögregluskýrslu er haft eftir henni að hún hafi alltaf búið við mikið ofbeldi á heimili sínu af hendi föður síns en hún segir alvarlegasta atvikið hafa verið fyrrgreint atvik frá 2016 þegar fjölskyldan var nýflutt til Íslands.

Árið 2019 hringdi dóttirin í lögregluna sem mætti heim til hennar þegar hún var ein á heimilinu. Þá greindi hún lögreglumönnunum frá því að faðir hennar hefði hótað henni fyrr um morguninn.

Málið varð síðar tekið fyrir í héraðsdómi þar sem meðal annars tvær vinkonur dótturinnar og bróðir hennar báru vitni fyrir hennar hönd og fyrir lá vottorð frá Landspítalanum þar sem segir að hún hafi komið í fyrsta greiningarviðtal árið 2017.

Í vottorðinu segir að dóttirin hafi sagt frá því ofbeldi sem hún hefði þurft að þola af hendi föður síns og að faðir hennar hefði oft lagt hendur á móður hennar.

Neitaði sök og sagði móðurina hafa brjálast

Faðir hennar neitaði þó sök í málinu fyrir dómi og sagði dóttur sína vera „dýrmætasta barnið“ sitt. Spurður um heimilislífið á sínum tíma sagði hann fjölskylduna hafa glímt við fjárhagserfiðleika þar sem hann og móðir þeirra voru bæði atvinnulaus en hann stofnaði fyrirtæki og við það batnaði fjárhagur heimilisins frá og með lok 2016.

Hann hélt því fram að móðir barnanna hefði helliþvegið börnin sín og gengið í hjónaband með sér í þeim tilgangi að koma til Íslands og safna peningum, hafa allt frá sér og misnota lög á landinu.

Hann sagði þau hafa skilið árið 2019 en að hann hefði kvænst annarri konu erlendis árið 2020. Hann sagði fyrrverandi eiginkonu sína hafa brjálast eftir að hann hafði kvænst annarri konu.

Maðurinn sagði framburð sinn í héraði standa og færði ekki frekari rök fyrir máli sínu í Landsrétti en núverandi eiginkona hans gaf skýrslu.

Sagði þau reyna að samræma framburð sinn

Kvaðst hún hafa orðið vitni að dóttur mannsins hringja í móður sína að lokinni skýrslugjöf í héraði og heyrðist henni þær mæðgur vera að samræma framburð sinn í málinu. Náði konan hluta símtalsins á upptöku.

Mæðgurnar áttu þá í orðaskiptum á íslensku sem núverandi eiginkona mannsins skildi ekki en kvaðst hún hafa heyrt dótturina hafa talað niðrandi um sig í símtalinu og sagt að dómarinn tæki aldrei mark konu mannsins þar sem hún kynni ekki að lesa.

Þá sagði hún son mannsins hafa mætt í dómshúsið í skýrslutöku og ræddi við systur sína sem sagði honum að hann skyldi greina frá í skýrslunni því sem þau hefðu rætt um.

Héraðsdómur stendur

Í niðurstöðu Landréttar segir að ákæruvaldið bendi á að núverandi eiginkona mannsins hafi ekki verið vitni að málsatvikum heldur hlýtt á símtal mæðgnanna og að ekki verði ráðið af framburði hennar eða af upptökunni að dóttirinn hefði greint móður sinni efnislega frá framburði sínum eða hafi farið með ósannindi um málsatvik.

Að því gefnu taldi Landréttur ekki ástæðu til að raska við dómi héraðsdóms og er manninum gert að sæta skilorðsbundnu fangelsi í átta mánuði, að greiða dóttur sinni eina milljón króna, að greiða syni sínum 400 þúsund krónur í miskabætur. 

Þá var manninum gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eða 1,8 milljónir kr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert