Um tíu þúsund íbúðir á landinu standa tómar, samkvæmt varfærnu mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, en það gera um 6,5% allra fullbúinna íbúða. Þar af eru um 2.500 í Reykjavík eða því sem nemur 4,5% allra fullbúinna íbúða í borginni.
Hlutfall tómra íbúða er á bilinu 15 til 20% í Múlaþingi, Skagafirði, Ísafirði og Borgarbyggð, og á Akureyri liðlega 10%.
Hlutfall tómra íbúða er hærra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þá er það almennt lágt á suðvesturhorni landsins ef Grindavík er ekki tekin með í reikninginn. Þá er hlutfall tómra íbúða í Reykjanesbæ undir hálfu prósenti, sem er lægsta hlutfallið á landinu. Þá er á eftir koma Mosfellsbær (1%), Hafnarfjörður (2%) og Kópavogur (3%).
Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu HMS. Stofnunin byggir framangreint mat sitt á upplýsingum úr fasteignaskrá, ásamt lögheimilisskráningum frá Þjóðskrá og upplýsingum um virka leigusamninga í Leiguskrá.
Þetta er í fyrsta skiptið sem HMS áætlar fjölda tómra íbúða með þessum hætti. Því ber að taka tölunum með fyrirvara, þar sem þær geta breyst með bættri skráningu íbúða eða breyttum talningaraðferðum.
Veltan á fasteignamarkaði hefur verið töluverð miðað við vetrartímann. Framboð íbúða til sölu hefur þó aukist hratt undanfarna mánuði og hafa íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu aldrei verið fleiri frá upphafi mælinga, eða ríflega 2.500.
Minna hefur verið um sölu og kaup íbúða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eftir því sem Grindavíkuráhrifin hafa fjarað út.
Þá hefur miðgildi leiguverðs hækkað um 13% umfram annað verðlag milli nóvembermánaða 2024 og 2023. Verð lítilla leiguíbúða spannar stærra bil en áður sem
er í samræmi við breikkandi bil á milli markaðsleigu og íbúða sem eru ekki reknar á
hagnaðarforsendum.
Þá virðist draga úr eftirspurn á leigumarkaði samkvæmt tölum frá vefnum Myigloo.is. Þar hefur virkum leitendum á hvern samning fækkað.
Á lánamarkaði voru útistandandi íbúðalán heimilanna 7% meiri í lok október en á sama
tíma í fyrra. Þetta jafngildir um 1,8% aukning heildarútlána eftir að tekið er tillit til
verðbólgu.
Ríflega 3.400 nýbyggðar íbúðir hafa verið teknar í notkun á þessu ári sem er meira en HMS hafði spáð í septembertalningu sinni. Virðast verktakar hafa lagt aukna áherslu á að ljúka framkvæmdum sem voru hafnar í stað þess að hefja nýjar.