Alls greindust 80 manns með RS-veirusýkingu á Landspítala í síðustu viku. Eru það mikið fleiri en vikuna á undan og er útlit fyrir að RS-veirufaraldurinn í vetur verði stærri en í fyrravetur.
Þeir sem greindust í síðustu viku voru í öllum aldurshópum. Alls voru 30 undir eins árs aldri, 16 voru á aldrinum 1 til 2 ára og 14 voru á aldrinum 65 ára og eldri.
Á Landspítala lágu 30 einstaklingar inni með RS-veirusýkingu, þar af 11 börn undir eins árs aldri.
Í vikulegu yfirliti sóttvarnalæknis yfir öndunarfærasýkingar segir að faraldur RS-veirusýkinga virðist ætla að verða stærri í vetur en í fyrravetur ef skoðuð eru gögn frá sama tímabili.
„Til dæmis greindust 48 einstaklingar í viku 50 í fyrravetur, sem var hæsti vikulegi fjöldi sem greindist þann veturinn, samanborið við 80 einstaklinga í viku 50 nú. Hugsanlegt er að faraldurinn sé fyrr á ferðinni nú og líklegra er að toppi sé ekki náð enn,“ segir í yfirlitinu.
Því er bætt við að fjöldi öndunarfærasýkinga sem send voru í veirugreiningu hafi verið sambærilegur í viku 50 í fyrravetur og í vetur, svo aukinn fjöldi tilfella skýrist ekki af auknum fjölda sýna.
Þá lágu 15 einstaklingar á Landspítala með RS-veirusýkingu í viku 50 í fyrravetur samanborið við 30 nú. Vikulegur fjöldi inniliggjandi á Landspítala með RS-veirusýkingu fór hæst í 21 einstakling í fyrravetur, í viku 52.
Sambærilegur fjöldi greindist með inflúensu í viku 50 og í vikunni á undan eða 22 einstaklingar.
Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum en fimm einstaklingar voru í aldurshópnum 65 ára og eldri og tveir voru yngri en fimm ára. Þrír í aldurshópnum 65 ára og eldri lágu á legudeild á Landspítala með inflúensu. Að auki voru 13 einstaklingar á bráðamóttökum Landspítala með inflúensu í vikunni.
Í viku 50 greindust níu einstaklingar smitaðir af kórónuveirunni, af þeim voru fimm á aldrinum 65 ára og eldri. Þrír lágu inni á Landspítala með kórónuveiruna þessa viku, allir 65 ára eða eldri.