Á morgun verður þess minnst í Neskaupstað að hálf öld verður þá liðin frá hörmulegum atburðum í bænum þegar snjóflóð féllu á byggðina með þeim afleiðingum að 12 létu lífið.
Þessir atburðir eru vel þekktir og hafa áður verið rifjaðir upp hér á síðum blaðsins enda ríkti þjóðarsorg í landinu vegna þessa í aðdraganda jólahátíðarinnar 1974. Atburðarásin verður því ekki rakin í smáatriðum í þessari umfjöllun.
Minningarstund verður haldin af þessu tilefni í Norðfjarðarkirkju á morgun klukkan 17. Séra Benjamín Hrafn Böðvarsson og séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir leiða stundina. Kór Norðfjarðarkirkju syngur í athöfninni ásamt tónlistarfólki frá Neskaupstað, samkvæmt auglýsingu frá sveitarfélaginu Fjarðabyggð. „Eftir minningarstundina verður haldin ljósastund við minningarreitinn vegna snjóflóðanna klukkan 18:00. Þaðan verður svo farin ljósaganga um snjóflóðavarnargarðana og endað í Safnahúsinu þar sem boðið verður upp á heitt súkkulaði og kleinur,“ segir þar enn fremur.
Í auglýsingunni eru íbúar sveitarfélagsins hvattir til að tendra friðarkerti við heimili sín á morgun til minningar um þau sem fórust í snjóflóðunum. Hér má bæta því við að í fyrri minningarathöfnum á Norðfirði vegna náttúruhamfaranna hefur verið kveikt á 12 kertum fyrir utan kirkjuna í sama tilgangi.
Hjónin Ólöf Þorvaldsdóttir og Logi Kristjánsson sendu nýlega frá sér bókina Fjall í fangið og þar er fjallað um snjóflóðin og uppbygginguna eftir hamfararnir ásamt fleiru sem snýr að mannlífinu í Neskaupstað en þau bjuggu í bænum um 11 ára skeið. Logi var bæjarstjóri í Neskaupstað og um leið formaður almannavarna þegar hörmungarnar dundu yfir.
Bókin verður vafalítið stórmerkileg heimild um þessa atburði en Ólöf segir að í bókinni segi Logi frá ýmsu sem ekki hafi komið fram áður á prenti. Ólöf ritaði bókina eftir frásögn Loga.
„Logi lýsir því hvernig aðkoman var á snjóflóðasvæðinu og segir frá björgunaraðgerðunum, sem stjórnandi þeirra, sem ekki hefur verið gert áður,“ segir Ólöf þegar Morgunblaðið hefur samband við hana. Óvissan var mikil á svæðinu þegar ekki lá fyrir hvort snjóflóðahættan væri um garð gengin eður ei en björgunaraðgerðir nauðsynlegar.
„Það sást ekki til fjalla og því ríkti fullkomin óvissa. Enginn gat vitað hvort fleiri flóð myndu falla yfir bæinn eða hvar. Sú staða var uppi fyrstu tvo sólarhringana. Það var hins vegar ekki rætt fyrst á eftir og líklega er það nú sagt í fyrsta skipti opinberlega eftir þessi 50 ár.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í dag.