Skiptar skoðanir eru um þá ósk Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) að fá varanlegt leyfi vegna áfengisveitinga á leikjum á Laugardalsvelli. Til þessa hefur verið veitt leyfi fyrir hvern einstakan viðburð.
KSÍ sendi Reykjavíkurborg umsókn sl. sumar. Borgarráð óskaði eftir því að menningar-, íþrótta- og tómstundaráð myndi leita umsagna.
Ráðið ákvað að senda erindið til umsagnar fjölmargra aðila og hafa umsagnir borist frá sjö þeirra, þ.e. Íþróttabandalagi Reykjavíkur, embætti landlæknis, IOGT á Íslandi, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði, Reykjavíkurráði ungmenna, Ungmennafélagi Íslands og velferðarráði.
Fram kemur í svari Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) að á formannafundi ÍBR sem haldinn var í október sl. hafi niðurstaðan verið skýr. Það sé vilji og raunar ákall félaganna um að sala á áfengi verði heimiluð; að sniðinn verði skýr rammi um með hvaða hætti slík sala ætti að vera.
„Áfengissala er alþekkt á menningarviðburðum hér á landi og hefur verið lengi. Vísbendingar eru um að sala á áfengi á íþróttaviðburðum gæti orðið mikilvæg tekjulind fyrir rekstur afreksíþróttastarfs. Í ljósi tíðarandans og þeirra fordæma sem þegar eru fyrir hendi, þá er erfitt að sjá rök sem fara gegn góðu tækifæri til fjáröflunar fyrir annars fjársvelta hreyfingu,“ segir ÍBR.
Stjórn ÍBR kveðst jákvæð fyrir því að áfengissala á íþróttaviðburðum fullorðinna verði heimiluð, enda verði settar skýrar reglur um fyrirkomulag sem unnið skal eftir þar sem m.a. er gætt að forvörnum gagnvart börnum og unglingum.
Í öðrum umsögnum kveður við annan tón. Embætti landlæknis leggur mikla áherslu á að bann við áfengisveitingum í tengslum við íþróttaviðburði standi óhaggað. Að mati embættisins er mikilvægt að skilja milli íþróttastarfs og áfengisdrykkju með hliðsjón af áhrifum þess á ungmenni.
Bindindissamtökin IOGT segja í umsögn að íþróttahreyfingin eigi sannarlega að vinna gegn notkun áfengis í tengslum við íþróttastarf. „Við leggjum til að allir sameinist um að frelsa alla anga samfélagsins undan gegndarlausum ágangi áfengisiðnaðarins sem aðeins vill auka notkunina og þar með sinn gróða.“
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag