Neytendastofa hefur skoðað matseðla og markaðsefni veitingastaða í miðbæ Reykjavíkur vegna ábendinga um notkun erlendra tungumála í markaðssetningu í miðbænum.
„Tekin var skoðun á 83 veitingastöðum og kom í ljós að aðeins tveir höfðu engan matseðil við inngöngudyr. Algengt var að matseðill væri birtur á íslensku og erlendu tungumáli en þó voru gerðar athugasemdir við að 34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku. Þessu til viðbótar voru gerðar athugasemdir við að sex veitingastaðir sem höfðu matseðla sýnilega á íslensku birtu annað kynningarefni eingöngu á ensku. Í síðastnefnda tilvikinu sendi Neytendastofa veitingastöðunum leiðbeiningar um skyldu til að notast við íslensku í markaðsefni,“ segir í frétt um málið á vefsíðu Neytendastofu.
Var skoðuninni fylgt eftir hjá þeim 36 veitingastöðum þar sem matseðill var ekki sýnilegur eða aðeins sýnilegur á ensku. Kom í ljós að á þessum stöðum höfðu 18 staðir gert breytingar og birta nú matseðil á íslensku.
„Neytendastofa mun nú taka upp formlega málsmeðferð gagnvart þeim 18 stöðum sem ekki brugðust við athugasemdum stofnunarinnar um að birta matseðla og annað kynningarefni á íslensku,“ segir í fréttinni.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag