Óvíst hvort þýskt eða íslenskt kjöt olli hópsmitinu

Leikskólinn Mánagarður er á Stúdentagörðunum við Eggertsgötu.
Leikskólinn Mánagarður er á Stúdentagörðunum við Eggertsgötu. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Hakkið sem olli hópsýkingu vegna E. coli-bakteríu, á leikskólanum Mánagarði í október, var blanda af nautakjöti frá Þýskalandi og kindakjöti úr sláturhúsi Kjarnafæðis Norðlenska á Blönduósi.

Ekki er þó hægt segja með vissu hvort kjötið bar með sér smitið, en hvorki á Íslandi né Þýskalandi er gerð krafa um sértækar sýnatökur með tilliti til E. coli til að tryggja að kjöt sem fer á markað sé ómengað.

Kjarnafæði tók þó sýni úr þýska kjötinu við komuna til landsins og var það prófað með tilliti til E. coli en reyndist undir viðmiði. Ekki voru gerðar prófanir á íslenska kjötinu áður en það fór út í blandaða hakkið.

Í ljós kom hins vegar að meðferð, eldamennsku og geymslu á hakkinu var ábótavant, en boðið var upp á hakk og spaghettí í hádeginu á leikskólanum þann 17. október. 

Þetta kemur fram í lokaskýrslu sóttvarnalæknis um hópsýkinguna.

Suða kom ekki upp og sósa geymd við stofuhita

Líklegt er að hakkið hafi ekki verið fullþiðnað þegar eldun hófst, sem jók líkur á að það næði ekki að steikjast í gegn. Frosinni papriku, frosnum lauk, tómötum úr dós, linsubaunum og grænmetiskrafti var bætt saman við hakkið. 

Þá hafi suða ekki verið látin koma upp á hakksósunni á meðan á eldun stóð, og var hún svo látin kólna við stofuhita í allt að 5 til 6 klukkustundir. Að þeim tíma loknum var hakksósan sett í kæli yfir nótt. Daginn eftir var hakksósan hituð upp aftur og borin fram í hádeginu ásamt soðnu spagettíi. 

Niðurstöður greininga frá Matís benda til þess að hluti hakksins hafi ekki náð 70° hita við eldun, sem þarf til að drepa E. coli bakteríur. Auk þess hafi geymsla sósunnar við stofuhita valdið því að E. coli bakteríurnar náðu auðveldlega að fjölga sér.

Börn enn í eftirliti vegna fylgikvilla

Hópsýkingunni greindust alls 49 einstaklingar með shiga-toxin myndandi E. coli, þar af 45 börn á leikskólanum Mánagarði. Tólf börn voru lögð inn á legudeild Barnaspítala Hringsins, fimm börn inn á gjörgæslu og tvö þeirra þurftu skilunarmeðferð vegna nýrnabilunar.

Einkenni  barnanna voru mismikil, allt frá vægum niðurgangi upp í svæsinn blóðugan niðurgang og alvarleg veikindi með nýrnabilun. Öll börnin hafa verið útskrifuð af spítalanum en nokkur eru enn í eftirliti vegna fylgikvilla sýkingarinnar.

Starfsfólk fékk fræðslu um hreinlæti

Hakkið fór ekki í almenna sölu, heldur var eingöngu selt til veitingastaða og mötuneyti, þar með talið þriggja leikskóla. Kjarnafæði hafði samband við alla kaupendur en allt hakkið reyndist hafa verið eldað og neytt og því kom ekki til innköllunar. Engar vísbendingar voru um veikindi hjá öðrum kaupendum eða neytendum.

Mánagarði var lokað strax og ljóst var að um E.coli smit var að ræða og sagði matráður leikskólans upp í kjölfarið. Eftir að leikskólinn opnaði aftur þann 5. nóvember hefur verið boðið upp á aðkeyptan mat. Þá hélt heilbrigðiseftirlitið fræðsluerindi fyrir starfsfólk um hreinlæti og meðferð matvæla miðaða að starfsemi leikskólans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert