Reif í jakka konu sem féll af rafhlaupahjóli

Maðurinn stökk í veg fyrir konuna og reif í jakka …
Maðurinn stökk í veg fyrir konuna og reif í jakka hennar með þeim afleiðingum að hún féll af rafhlaupahjóli og meiddist. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tæplega fertugan karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á konu á rafhlaupahjóli í miðborg Reykjavíkur í nóvember 2022. 

Þá var maðurinn dæmdur til að greiða konunni 385.000 kr. í miskabætur. 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru á hendur manninum 24. september. Þar var hann sakaður um líkamsárás með því að hafa laugardaginn 5. nóvember 2022 veist með ofbeldi að konu utandyra við Barónsstíg í Reykjavík.

Í ákærunni segir að hann hafi stokkið í veg fyrir konuna þar sem hún ók rafhlaupahjóli og í kjölfarið rifið í jakka hennar þegar hún hugðist halda leið sinni áfram með þeim afleiðingum að hún féll af rafhlaupahjólinu og hlaut tognun á ökkla.

Játaði sök

Konan fór fram á eina milljón kr. í miskabætur vegna málsins. 

Í dómnum, sem féll í gær, segir að maðurinn hafi játað sök sína samkvæmt ákæru skýlaust. Hann hefur áður komist í kast við lögin en árið 2015 var hann dæmdur í 40 daga skilorðsbundið fangelsi vegna líkamsárásar. 

Konan starfsmaður Landspítalans

Þá kemur fram, að við ákvörðum refsingar hafi verið litið til greiðlegrar játningar mannsins.

„Þá verður litið til þess að árás ákærða beindist að starfsmanni [...] Landspítala, þar sem ákærði hafði dvalið, sem og til þess sem fram er komið um andlegt ástand ákærða. Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu refsingarinnar er frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert