Ritstjórnir Heimildarinnar og Mannlífs ekki sameinaðar

Reynir Traustason, eigandi Mannlífs, og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Heimildarinnar.
Reynir Traustason, eigandi Mannlífs, og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Heimildarinnar. Samsett mynd

Ekki stendur til að sameina ritstjórnir Heimildarinnar og Mannlífs þó viðræður standi yfir um yfirtöku útgáfufélags fyrrnefnda miðilsins á þeim síðarnefnda.

Þá stendur ekki til að Reynir Traustason, núverandi ritstjóri og annar eigenda Mannlífs ritstýri áfram miðlinum. Forsenda fyrirhugaðrar yfirtöku er að ritstjórnarstefna Mannlífs verði endurmetin og mótuð frá grunni. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Sameinaða útgáfufélaginu, sem gefur út Heimildina.

Mannlíf hefur hins vegar verið gefið út af tveimur eigendum félagsins sem fara samtals með 15 prósenta hlut. Yfirlýsingin er sögð send út vegna rangfærslna sem eiga að hafa komið fram í umfjöllun um yfirtökuna.

Framkvæmdastjóri vék vegna fjölskyldutengsla

„Mat á yfirtökunni hefur verið í samhengi við vilja meirihluta stjórnar Sameinaða útgáfufélagsins, sem hefur engin hagsmuna- eða fjölskyldutengsl við eigendur Mannlífs. Enginn aðili sem er tengdur eigendum Mannlífs fjölskyldu- eða hagsmunaböndum tók ákvörðunina. Framkvæmdastjóri félagsins vék sér undan ákvörðun um málið vegna tengsla,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni, en Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri félagsins, er sonur Reynis Traustasonar.

Málið er sagt alfarið á ábyrgð og forræði stjórnar útgáfufélagsins og lúti á endanum lýðræði hluthafa félagsins.

Ekki hefur enn verið undirritaður kaupsamningur um yfirtöku á Mannlífi en í yfirlýsingunni segir að skilyrði stjórnar Sameinaða útgáfufélagsins sé að samningur um yfirtöku feli í sér að félagið leggi í heildina ekki út fé til eigenda Mannlífs, en yfirtaki skuldbindingar um starfssamninga blaðamanna og rétt á endurgreiðslum ritstjórnarkostnaðar.

Tveir sögðu sig úr stjórninni vegna ósættis

Áframhaldandi viðræður eru sagðar hafa átt að fara fram á vettvangi stjórnarfundar í dag, en áður en til þess kom hafi tveir stjórnarmenn sagt sig úr stjórninni.

Úrsögn þeirra úr stjórn félagsins sé niðurstaða langvarandi ósamkomulags um stefnu félagsins og stjórnarhætti, sem hamlað hafi störfum stjórnar.

Reynir Traustason birti sjálfur færslu á Facebook-síðu sinni í gær vegna málsins og sagði að viðræður um sölu hefðu staðið yfir frá því í júní og þeim miðaði vel. Verðmiðinn á Mannlífi væri hins vegar ekki hár.

Þá sagðist Reynir ætla að einbeita sér að verkefnum hjá Ferðafélagi Íslands, bókaskrifum og hlaðvarpinu Sjóaranum. Hann ætlaði sér að stíga út úr því daglega þrasi sem fylgdi fréttamiðli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert