Matvælastofnun hefur lagt dagsektir, tíu þúsund kr. á dag, á minkabúið Dalsbú í Mosfellsbæ til að knýja fram úrbætur á velferð minkanna.
MAST fer fram á að umhverfisauðgandi hlutir á borð við bolta, kubba eða rör verði settir í minkabúrin til að veita minkunum örvun og bæta líðan þeirra. Ásgeir Pétursson eigandi Dalsbúsins hefur ekki orðið við þessu og segir leikföngin ekki auka velferð dýranna heldur geta þvert á móti skaðað þau og haft fleiri óæskileg áhrif.
„Það verður að vera ákveðin skynsemi í því sem ætlast er til af okkur. Ég myndi setja leikföng hjá dýrunum ef ég teldi að það yrði til bóta en svo er ekki,“ segir Ásgeir í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Hann hefur nú fengið greiðsluáskorun frá sýslumanni vegna innheimtu sektanna. Dalsbúið fékk fyrir skömmu WelFur-gæðavottun á dýravelferð í minkabúum eftir skoðun eftirlitsmanna matsfyrirtækisins Baltic Control.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag