Stjórnarsáttmáli Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins verður kynntur um helgina og verður ný ríkisstjórn mynduð í kjölfarið.
Þetta kom fram á stuttum blaðamannafundi sem hófst á Alþingi núna klukkan 17.15.
Flokkarnir ákváðu 3. desember að hefja stjórnarmyndunarviðræður og tilkynntu formennirnir á föstudag í síðustu viku, 13. desember, að farið yrði í að skrifa stjórnarsáttmála.
Kom fram á blaðamannafundinum að formennirnir hafi rætt um skiptingu ráðuneyta á milli flokkanna og að þær tillögur verði kynntar fyrir flokksmönnum á næstunni.
Einnig kom fram að flokkarnir hafi hlotið mikla hjálp frá stjórnsýslunni í vinnu sinni þar sem hátt í 60 minnisblöð hafa verið skrifuð í tengslum við vinnuna.
„Við höfum legið yfir miklum smáatriðum. Það liggur alveg fyrir að þetta traust sem er okkar á milli byggir á því að við höfum náð saman líka um ákveðnar staðreyndir og ákveðið upplegg en síðan þarf líka aðeins að takast á um pólitíkina.
En við erum mjög þakklátar fyrir allt það framlag sem hefur komið frá stjórnsýslunni í þessari vinnu. Þau hafa lagt sig mikið fram og við höfum fengið yfir okkur alveg fjölda minnisblaða og það hefur verið mjög hjálplegt í þessum undirbúningi,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Um skiptingu ráðuneyta segir Kristrún að umræða um hvar vilji hvers flokks liggi hafi verið tekin og verið sé að leita ákveðins jafnvægis þegar kæmi að skiptingu. Staðan væri að áhugasvið og áherslur væru misjafnar á milli flokkanna.
Þá komi það í ljós um helgina hvernig stjórnin muni leggjast upp en að sögn Kristrúnar skiptir máli að fólk sé í stöðum þar sem það gæti ýtt málum hratt og örugglega í framkvæmd en að lykilatriðið sé að hópurinn verði samhentur.
„Við undirstrikum þetta: Sterk samhent ríkisstjórn,“ segir Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.