Þetta er orð ársins 2024

Orð ársins er hraunkæling.
Orð ársins er hraunkæling. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Orð ársins að mati Árnastofnunar er orðið hraunkæling. Þetta er í tíunda sinn sem Árnastofnun velur orð ársins. 

Alls eru valin tíu orð, en aðeins eitt sem talið er hafa staðið upp úr.

Um orðið segir í tilkynningu á vef Árnastofnunar:

„Seinustu ár hafa einkennst af eldsumbrotum á Reykjanesskaga sem hófust með gosi í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars 2021. Orð af meiði eldfjallafræða voru plássfrek þetta fyrsta ár en þá voru orðin óróapúls, gosmóða og kvikugangur tilnefnd sem orð ársins hjá Árnastofnun.

Næstu tvö ár héldu eldsumbrot áfram án þess að ný eða gömul orð vektu mikla athygli. Á liðnu ári færðist hins vegar fjör í leikinn, alls sex eldgos á einu ári. Ýmis orð gerðu sig gildandi, eins og varnargarður, sprunguhreyfingar og kvikusöfnunarsvæði en mest bar þó á orðinu hraunkæling. Um sumarið 2024 var byrjað að beita hraunkælingu þegar óvíst var um að varnargarðarnir einir myndu duga en hraunkæling er alíslensk uppfinning sem virkaði vel í gosinu á Heimaey árið 1973.

Strax árið 2023 var byrjað að viðra þá hugmynd að nota hraunkælingu til að bjarga innviðum á Reykjanesskaga og kemur orðið 161 sinnum fyrir í gögnum Risamálheildar það árið. Á fyrstu tíu mánuðum þess árs kemur það hins vegar 1.530 sinnum fyrir. Orðið vakti einnig sérstaka athygli í nýja starfsheitinu hraunkælingarstjóri, sem Helgi Hjörleifsson ber, alltént um sinn.“

Önnur orð á listanum eru:

  • Inngilding
  • Þyngdarstjórnunarlyf
  • Gjörunninn
  • Fjölskyldusameining
  • Móttökuskóli
  • Brottfaraúrræði
  • Skjáhætta
  • Tómthússkattur
  • Vindorkuréttindi

Nánar er fjallað um orð ársins á vefnum Mannamál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert