Ekkert bendir til þess að RS-veirusýkingin sé að fara niður en hún getur valdið alvarlegum veikindum hjá ungum börnum. Settur landlæknir segir að það sé til skoðunar að fá mótefni hingað til lands á næsta ári sem geti fækkað innlögnum á spítala vegna veirunnar töluvert.
Greint var frá í dag að alls greindust 80 manns með RS-veirusýkingu á Landspítala í síðustu viku. Eru það mikið fleiri en vikuna á undan.
Þá lágu 30 einstaklingar inni með sýkinguna, þar af 11 börn undir eins árs aldri.
Guðrún Aspelund, settur landlæknir, segir ekkert ár vera nákvæmlega eins þegar kemur að sýkingunni en bendir jafnframt á að RS-veirusýkingin hafi verið gerð tilkynningarskyld í fyrra og því sé ekki mikill samanburður á milli ára í boði.
Hægt er þó að sjá á heimasíðu embættis landlæknis mælaborð sem sýnir m.a. tíðni RS-veirunnar eftir aldri og má þar sjá að börn yngri en eins árs eru þau sem greinast flest með veiruna.
„Þetta er að fara mjög skarpt upp og við vitum náttúrulega ekki hvar toppurinn verður þannig maður veit ekki alveg heildarfjöldann en það fer eftir hvað þetta fer langt upp og hvað þetta fer hratt niður eða hægt niður.
En það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé að fara niður. Þetta er bara bein lína upp eins og er,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is
Þá segir hún hlutfall jákvæðra sýna hafa einnig verið að aukast sem bendi til að það sé raunveruleg aukning á sýkingunni í samfélaginu. Hún sé ekki bara að sjást í auknum mæli vegna fleiri sýnataka.
„Þetta er mikið og er að fara ansi hratt upp.“
Þá er veirusýkingin einnig að geisa í Evrópu og segir Guðrún að RS-veiran sé í raun aðalveirusýkingin sem sé í gangi núna.
„Inflúensa er vissulega farin af stað en það er ekki kominn mikill faraldur á hana.“
Aðspurð segir hún alla geta fengið RS-veirusýkinguna en að fyrir flesta séu einkenni væg og líkist kvefi. Þannig geti mögulega einhverjir verið með sýkinguna en ekki vitað af því.
„En þeir sem verða verst veikir eru yngstu börnin og síðan eldra fólk líka en aðallega ung börn.“
Segir Guðrún að þá sé verið að tala um ungbörn sem séu yngri en eins árs en meirihluti þeirra sem hafa smitast er yngri en tveggja ára.
„Þau geta alveg orðið alvarlega veik og það hafa einmitt verið núna í síðustu viku og þar á undan svona um tíu börn inni á spítalanum og þetta getur orðið mjög alvarlegt.
Börn geta þurft að fara í öndunarvél út af RS. Það er ekkert óalgengt ef þau lenda á spítala. Stundum ef þau eru með svona mikla öndunarfærasýkingu þá geta þau ekki nærst sjálf og þá þarf kannski að gefa þeim næringu í gegnum slöngu ofan í magann.“
Spurð hvernig best sé að reyna að forðast að verða fyrir smiti minnir Guðrún á almennar sóttvarnir en nefnir jafnframt að það sé þó ekki alltaf jafn einfalt þegar um lítil börn sé að ræða.
„Það sem við reiðum okkur helst á annars í forvörnum eru bólusetningar.“
Nefnir Guðrún að það sé þó ekki til bóluefni gegn RS-veirunni en að komið sé mótefni sem er frábrugðnara því sem finna má hér á landi.
Segir hún mótefnið sem boðið hafi verið upp á hér heima sé ekki langvirkt og einungis fyrir áhættuhópa. Það sé gefið inni á spítala og ekki á vegum sóttvarnarlæknis.
„Það er gefið fyrirburum og þeim sem eru með hjarta- og lungnasjúkdóma en þeir þurfa að fá það einu sinni í mánuði yfir tímabilið [sem RS-veiran gengur yfir].“
Segir Guðrún að nú sé hins vegar komið nýtt mótefni sem hafi verið notað í fyrsta skipti í fyrravetur í nokkrum löndum í Evrópu eins og Frakklandi, Þýskalandi, Spáni og Finnlandi svo fáein séu nefnd.
Því mótefni hafi verið gefið börnum í upphafi vetrar og einungis einu sinni og segir Guðrún mótefnið hafa virkað mjög vel og að verið sé að skoða hvort reynt verði að koma mótefninu hingað til lands á næsta ári.
Tekur þó Guðrún fram að mótefnið yrði ekki fyrir börn á öllum aldri heldur væri miðað að ungum börnum sem væru að fæðast á svipuðum tíma og RS-veiran væri að ganga yfir en þá börnum sem væru mjög ung á því tímabili.
Þá tekur hún einnig fram að ekki sé um að ræða bóluefni en líkaminn myndi mótefni eftir bólusetningu. Um sé að ræða beint mótefni og myndi því ekki fylgja aukaverkanir fyrir þá sem fá það.
„Þetta kemur ekki í veg fyrir allt og kemur ekki í veg fyrir smit en það virðist vera að þetta geti minnkað innlagnir alveg upp í 80%.“
Segir hún að það þurfi þó að mæla með því við stjórnvöld og svo að fjármagna það en tekur fram að það sé í skoðun.
„Þessi fyrsti vetur þar sem þetta var notað, við höfum verið að skoða þær niðurstöður núna í haust og okkur sýnist þær vera mjög góðar og þetta er mjög öruggt efni. Þetta er mótefni þannig það eru engar aukaverkanir.“
Þá nefnir hún að einnig séu komin önnur bóluefni fyrir fólk sem er yfir sjötugt til að berjast gegn öndunarfærasýkingum og að embætti landlæknis sé líka með það til skoðunar á borði sínu.