Dómsmálaráðherra hefur skipað Veru Dögg Guðmundsdóttur í kærunefnd útlendingamála.
Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Þar segir að Vera hafi verið valin úr hópi sex umsækjenda en einn dró umsókn sína til baka að loknu hæfnismati. Sérstök hæfnisnefnd rýndi menntunar- og hæfniskröfur auglýsingar um stöðuna og skilgreindi hæfnisþætti út frá auglýsingu og starfinu eins og það birtist í lögum um útlendinga og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Vera Dögg lauk meistaragráðu frá Lagadeild Háskóla Íslands árið 2013 og hafði áður lokið BA gráðu við sama skóla árið 2010. Þá er hún í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu með áherslu á stjórnun og stefnumótun opinberra stofnana (MPM) við University of York í Bretlandi. Vera hefur starfað hjá Útlendingastofnun frá árinu 2014 í fjölbreyttum störfum og hefur frá árinu 2019 verið sviðsstjóri skrifstofu forstjóra og staðgengill forstjóra.
Kærunefnd útlendingamála er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem úrskurðar í málum sem til hennar eru kærð á grundvelli 7 gr. laga um útlendinga. Eftir lagabreytingar á þessu ári verður nefndin framvegis skipuð þremur nefndarmönnum í fullu starfi, formanni, varaformanni og nefndarmanni. Nefndarmaður sinnir ásamt formanni og varaformanni innra starfi nefndarinnar svo sem gerð verklagsreglna, undirbúningi úrskurða nefndarinnar og þróun starfsemi í þágu gæða og skilvirkni. Nefndarmaður úrskurðar einn í tilteknum tegundum mála samkvæmt lögum um útlendinga, að því er segir í tilkynningu ráðuneytisins.