Forstjóri bendir á ábyrgð birgja vegna verðhækkana

Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, kveðst hafa tekið eftir verðlækkunum …
Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, kveðst hafa tekið eftir verðlækkunum erlendis sem ekki hafi skilað sér hér á landi. Samsett mynd

Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, sem m.a. reka verslanir Nettó, segir að umræða þurfi að fara fram um ábyrgð birgja og framleiðenda varðandi verðlag á matvöru á Íslandi.

Þannig hafi hann orðið var við verðlækkanir á vörum erlendis sem ekki skili sér til neytenda hérlendis þar sem birgjar séu tregir til verðlækkana. Jafnvel séu þvert á móti dæmi þess að vörur hækki í verði í innkaupum verslana Samkaupa þegar þær virðist lækka erlendis.

Þá telur hann þær skýringar sem gefnar séu um að launahækkunum sé ýtt út í verðlag vera heldur einfaldar. Þannig hafi Samkaup t.a.m. lagt sig fram um að reyna að lækka eigin kostnað í takti við það sem rætt var um við undirritun kjarasamninga, í stað þess að fleyta launahækkunum út í verðlag. Hann telur birgjana sýna slíku tali lítinn áhuga.

Verðhækkanir umfram það sem ætla mætti 

„Það hefur verið ákveðið umræðuleysi um aðfangakeðjuna í heild sinni. Auðvitað skilur maður neytandann þegar talað er um verðlagningu eða verðbreytingar verslana og maður er ekkert að biðjast vægðar þegar kemur að umræðunni hvað það varðar,“ segir Gunnar. 

Gunnar Egill er forstjóri Samkaupa.
Gunnar Egill er forstjóri Samkaupa. Ljósmynd/Nettó

Óháð því segir hann hækkanir framleiðenda og birgja hafa verið langt umfram það sem ætla mætti undanfarin tvö ár.

„Við erum búin að fara í gríðarlegar hagræðingaraðgerðir innan dyra hjá okkur. Eru birgjar og framleiðendur búnir að fara í sömu aðgerðir til að þurfa ekki að fara í kostnaðarhækkanir? Í það minnsta finnst manni skorta rök fyrir því af hverju birgjar hafa hækkað verð eins mikið og raun ber vitni. Ég tek undir með Breka Karlssyni, formanni Neytendasamtakanna, um að þessar hækkanir sjáist ekki erlendis.

80% kostnaðar í innkaupum 

Bendir hann á að um 80% af kostnaði verslana hjá Samkaupum séu innkaup á matvælum annars staðar frá.

„Ef okkur tekst að lækka þann kostnað lækkar matvöruverð í verslunum okkar. Svo einfalt er það,“ segir Gunnar.

Hann segir að menn hafi tekið eftir því að stór vörumerki á markaði hafi verið að lækka í verði erlendis.

„En á sama tíma höfum við ekki verið að fá neinar lækkanir og við höfum verið að spyrja af hverju ekki?“

En getur fyrirtækið ekki sjálft flutt inn þessar vörur?

„Það er rosalega erfitt fyrir okkur að gera það þegar kemur að stóru vörumerkjunum. Við komumst ekki í það. Við erum að gera það í einhverjum tilfellum, flytjum inn vörur sjálf og höfum því fylgst með verðþróun á þeim vörum sem við flytjum inn í samanburði við þær sem við kaupum af birgjum,“ segir Gunnar.

Skilur engan veginn hvernig vissar vörur hækka í verði 

Hann segir hægt að nefna mörg dæmi.

„Við erum að flytja inn okkar eigin bleyjur sem hafa lækkað í verði nokkrum sinnum frá því í janúar og höfum verið að skila því út í verðlag. Á móti hefur verð á bleyjum frá innlendum aðilum ekki lækkað í verði,“ segir Gunnar.

Hann nefnir önnur dæmi sem hann telur illskiljanleg.

„Ég hef t.d. ekki tækifæri á því að flytja inn Coke eða Pepsi. Við erum með tvö gosdrykkjafyrirtæki á markaði sem hafa verið að hækka verð. En af hverju hafa vörurnar verið að hækka? Er það vegna þess að laun hafa verið að hækka um 6% og þetta er sett beint út í verðlagið? Það er ekki það sem rætt var um við gerð kjarasamninga. Þar var rætt um að fyrirtæki ættu að leita inn á við og hagræða til þess að ná niður verðbólgu og þar af leiðandi vöxtum. En það er bara hægt ef allir ætla að dansa með. Ef aðeins verslunin og ákveðnir framleiðendur ætla að dansa með, þá virkar formúlan ekki.

80% af kostnaði verslana hjá Samkaupum eru innkaup á matvælum …
80% af kostnaði verslana hjá Samkaupum eru innkaup á matvælum annars staðar frá. Samsett mynd

Klósettpappír, morgunkorn og snakk 

Gunnar segir að þótt samanburður á vörum geti verið ónákvæmur fylgi vöruflokkar yfirleitt ákveðnum breytingum hvað verð varðar. Með það í huga sé erfitt að skilja hvers vegna sumir hlutir hafi hækkað í verði.

„Við flytjum inn okkar eigin klósettpappír. Hann hefur lækkað um 15% síðustu 12 mánuði. Klósettpappír frá innlendum birgja hefur á sama tíma hækkað um 5% síðustu 12 mánuði.

„Við erum með morgunkorn sem við höfum flutt inn og verðið hefur verið óbreytt í 12 mánuði. Á sama tíma hefur morgunkorn frá innlendum birgjum hækkað um 14%.“

Þá erum við með kartöflusnakk í eigin innflutningi sem hefur lækkað um 4% síðustu 12 mánuði. Kartöflusnakk innflutt af innlendum birgjum hefur hins vegar hækkað um 15%.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert