Félagið Hekla fasteignir ehf. hefur keypt hús heilsugæslunnar í Drápuhlíð 14-16 í Reykjavík. Kaupverð var 341,1 milljón króna.
Ríkissjóður Íslands átti 85% hlut í húsinu og Reykjavíkurborg 15% hlut.
Birt stærð hússins er 818,7 fermetrar og er kaupverðið því 417 þúsund á fermetra.
Kaupandi greiddi 150 milljónir við undirritun kaupsamnings 11. nóvember síðastliðinn og mun svo greiða eftirstöðvarnar, 191,1 milljón króna, við útgáfu afsals eigi síðar en 14. janúar.
Sagt var frá því í Morgunblaðinu 19. október síðastliðinn að heilsugæslan væri föl á 395 milljónir króna. Þar sagði meðal annars:
„Heilsugæslan flutti úr húsinu yfir í Skógarhlíð 18 en síðarnefnda húsið var tekið í gegn og standsett fyrir nýja starfsemi. Eftir flutninginn kannaði Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) hvort byggingin hentaði fyrir starfsemi á vegum ríkisins, líkt og fram kom í samtali Morgunblaðsins við Karl Pétur Jónsson, þáverandi upplýsingafulltrúa hjá stofnuninni, hinn 21. janúar í fyrra.
Niðurstaða þeirrar athugunar liggur nú fyrir með því að húsið hefur verið sett á sölu. Samkvæmt upplýsingum frá FSRE hefur tilboð ekki borist en eignin er nýkomin á markaðinn,“ sagði í frétt blaðsins 19. október.
Málinu er nú lokið með sölu eignarinnar en söluverðið var 53,9 milljónum undir ásettu verði. Á baklóð heilsugæslunnar eru malbikuð stæði sem ætluð voru starfsmönnum. Það gæti reynst kostur en bílastæði í Drápuhlíð eru jafnan ekki sérmerkt.
Í fyrrnefndri frétt Morgunblaðsins sagði að eignin í Drápuhlíð væri tækifæri fyrir fjársterka. Vakin hefði verið athygli á því í fasteignaauglýsingu að hugsanlega myndu skipulagsyfirvöld heimila fjölgun íbúða og breytingar á húsnæðinu, til dæmis með því að útbúa svalir. Þá sagði þar að eignin skiptist í þrjár hæðir og kjallara auk þakrýmis og var í því efni vísað í auglýsingu.
Kjallari var skráður 239 fermetrar í auglýsingunni og þar af voru 176 fermetrar hluti heilsugæslustöðvar og að mestu með gluggum. Þá væri rúmlega 40 fermetra geymsla, tækni- og inntaksrými sem væri að mestu gluggalaust. Jafnframt færu 22 fermetrar undir stigahús.
Fyrsta hæðin væri skráð 222 fermetrar og færu þar af tæplega 12 fermetrar í stigahús. Önnur hæðin væri skráð 232 fermetrar og færu þar af sex fermetrar í stigahús. Loks væri þriðja hæðin skráð 125 fermetrar og færu þar af um sex fermetrar í stigahús.
Skráður eigandi Heklu fasteigna er Friðbert Friðbertsson, gjarnan kenndur við Heklu, en hann endurgerði fyrir nokkrum árum Víðimel 29 sem hýsti áður kínverska sendiráðið. Friðbert og Soffía Huld Friðbjarnardóttir eiga nú jafnan hlut í húsinu. Skráður kaupdagur er 15. júní 2020 en kaupsamningur virðist ekki aðgengilegur í fasteignaskrá.
Fasteignin á Víðimel 29 skiptist í fimm íbúðir og bílskúr. Fasteignamat næsta árs hljóðar upp á tæpar 437 milljónir króna en húsið er tæplega 725 fermetrar.
Samkvæmt ársreikningi Heklu fasteigna í fyrra námu eignir félagsins þá 2.565 milljónum króna, samanborið við 2.269 milljónir árið áður.
„Eftir sölu fasteigna félagsins við Laugaveg hefur Hekla hf. ásamt Heklu fasteignum ehf. unnið að undirbúningi byggingar nýrra höfuðstöðva fyrir Heklu hf. Undir lok árs 2023 festi félagið kaup á lóð við Þorraholt 2-4, Garðabæ, þar sem fyrirhugað er að nýjar höfuðstöðvar muni rísa,“ sagði í ársreikningnum. Hefur Friðbert því mörg járn í eldinum.