Lát hjóna í Neskaupstað: Ákæra gefin út

Ljósmynd frá lögregluaðgerðum.
Ljósmynd frá lögregluaðgerðum. Ljósmynd/Aðsend

Gefin hefur verið út ákæra á hendur karl­manni, sem grunaður er um að hafa valdið dauða hjóna á átt­ræðis­aldri sem fundust látin á heim­ili sínu í Nes­kaupstað í ág­úst. Verður ákæran send í Héraðsdóm Austurlands í dag. 

Maðurinn verður áfram vistaður á viðeig­andi stofn­un en dómari hefur fallist á kröfu um vistun til 14. mars. 

Þetta staðfestir Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, í samtali við mbl.is.

29 vikur í gæsluvarðhaldi hið minnsta

Í gögnum málsins kemur fram að maður­inn hafi viður­kennt við yf­ir­heyrsl­ur að hafa verið á heim­ili hjón­anna í Nes­kaupstað en neitaði að hafa verið vald­ur að dauða þeirra. Þau hafi þegar verið lát­in. Útskýr­ing­ar hans á því hvers vegna hann hafi ekki til­kynnt um slasað eða látið fólk þóttu ekki trú­verðugar.  

Að sögn vitna sást maður­inn við hús hjón­anna að kvöldi 21. ág­úst og segjast vitni skömmu síðar hafa heyrt „þung bank-högg“ úr íbúðinni. Sjúkra­flutn­inga­menn komu fyrst­ir á vett­vang og greindu lög­regl­unni frá því að fólkið væri greini­lega látið. 

Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald 23. ágúst og hefur því setið í gæsluvarðhaldi í 17 vikur í dag og mun hafa setið í gæsluvarðhaldi í 29 vikur þegar það á renna út í mars á næsta ári. 

Sam­kvæmt lög­um um meðferð saka­mála er aðeins heim­ilt að vista grunaða í gæslu­v­arðhaldi í 12 vik­ur án þess að ákæra sé gef­in út gegn þeim. Arnþrúður segir öðru máli gegna í þeim tilvikum þar sem grunaðir eru vistaðir á viðeigandi stofnun, ekki sé í sjálfu sér um gæsluvarðhald að ræða þó almannahagsmunir séu taldir uppfylltir samkvæmt gæsluvarðhaldsákvæðinu. 

Þá segir hún að framlenging gæsluvarðhalds sé ekki bundin við fjórar vikur af sömu ástæðu. Arnþrúður getur ekki tjáð sig um innihald ákærunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert