Rúmir 10 milljarðar til úthlutunar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, hefur undirritað reglugerð um loftlags- og orkusjóð en sjóðurinn varð til við sameiningu sjóðanna tveggja sem heyra báðir undir ráðuneyti Guðlaugs. 

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að í janúar mun loftlags- og orkusjóður opna fyrir umsóknir úr sjóðnum og eru samtals 10 milljarðar til úthlutunar.

Sjóðurinn skiptist upp í tvo hluta: Annars vegar samkeppnishluta og hins vegar beinan stuðning við kaup á hreinorkutækjum. 

Áhersla á stuðning við kaup á hreinorkuökutækjum

Í tilkynningunni segir jafnframt að á næsta ári verði sérstök áhersla lögð á stuðning við kaup á hreinorkuökutækjum til notkunar í almenningssamgöngum. Með reglugerðinni er sett fram fyrirkomulag um stuðning við grænar lausnir sem mun gilda út árið 2028. 

Loftlags- og orkusjóður á að styðja við nýsköpunar- og innviðaverkefni á sviði loftlagsmála, orkunýtni, orkuskipta og hringrásarhagkerfis, einkum til verkefna í tengslum við innleiðingu nýrra loftlagsvænna lausna, auk þess að styðja við verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftlagsbreytinga. 

„Græn orkuskipti eru lykillinn að árangri bæði þegar horft er til orkuöryggis þjóðarinnar og til markmiða Íslands í loftlagsmálum. Það hefur verið kraftur og gangur í orkuskiptunum á þessu kjörtímabili og sameining Loftlags- og orkusjóða, sem tók gildi á þessu ári, er mikilvægur liður í því að einfalda regluverk og gera það skilvirkara,“ er haft eftir Guðlaugi Þór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert