Ný ríkisstjórn kynnt á morgun

Inga Sæland, Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Inga Sæland, Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Eyþór

Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar og skipan ráðherra verður kynnt á blaðamannafundi klukkan 13 í Hafnarborg í Hafnarfirði á morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstoðarmanni Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar. 

Þar segir einnig að gert sé ráð fyrir lyklaskiptum á sunnudaginn.

Ríkisráðsfundir verða haldnir á Bessastöðum á morgun. Klukkan 15 hefst fundur fráfarandi starfsstjórnar.

Fyrsti ríkisráðsfundur nýrrar ríkisstjórnar hefst klukkan 16.30.

Þingflokkar funda

Þingflokkar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins funda í fyrramálið fyrir blaðamannafundinn vegna nýs stjórnarsáttmála flokkanna.

Kristrún Frostadóttir, sem leitt hefur stjórnarmyndunarviðræðurnar, verður forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur verið orðuð við fjármálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur verið orðuð við félagsmálaráðuneytið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert