Stóðu skógarþjófa að verki

Greni í víðfeðmum skógi. Eftirsótt og nú verður að fylgjast …
Greni í víðfeðmum skógi. Eftirsótt og nú verður að fylgjast með. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Tveir menn um þrítugt, Íslendingar, voru stöðvaðir nú á aðventunni þar sem þeir voru að fella jólatré í landi Skógræktarfélags Árnesinga á Snæfoksstöðum í Grímsnesi. Bændur í nágrenninu urðu varir óvenjulegra mannaferða í skóginum og létu tvo af fulltrúum í stjórn félagsins vita.

Þeir fóru á vettvang og komu þá að hinum óvelkomnu skógarhöggsmönnum sem lögðu á flótta. Þeir óku af stað með alls 94 furutré á jeppakerru sem þeir losuðu sig fljótlega við og óku svo á brott.

„Þegar við komum sögðust mennirnir vera í skógarhöggi á veghelgunarsvæði, þetta væri nærri sveitavegi sem þarna liggur. Til þessa hefðu þeir leyfi frá Vegagerðinni, en þær skýringar standast ekki,“ segir Kjartan Þ. Ólafsson fv. alþingismaður, annar þeirra tveggja sem fóru á vettvang og stóðu gripdeildarmennina að verki.

„Kerruna sem mennirnir losuðu sig við fundum við í Snæfoksstaðalandi. Þar á voru höggvin tré sem við fórum með í sölu og þau hafa verið að tínast út síðustu daga. Nei, við höfum aldrei lent áður í neinu þessu líku og heppni að við skyldum ná mönnunum, en samanlagt virði þeirra trjáa sem þeir voru komnir með nálgast eina milljón króna,“ segir Kjartan.

Skógarþjófarnir, ef svo mætti kalla, komust ekki langt. Lögregla stöðvaði för þeirra í Grímsnesinu ekki langt frá Snæfoksstöðum. Skýrsla var tekin af þeim á vettvangi, en til stendur að kanna málið betur. Þar á eftir verður tekin ákvörðun um afgreiðslu málsins, skv. því sem lögreglan á Suðurlandi upplýsti Morgunblaðið um.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert