Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs barna og fjölskyldustofu, segist ekki líta á skýrslu umboðsmanns Alþingis um eftirlitsheimsóknir á neyðarvistun Stuðla, þar sem kemur fram að ýmsu sé ábótavant er varðar aðbúnað og umgjörð starfseminnar, sem áfellisdóm yfir starfinu sem þar er unnið.
„Við fögum öllu eftirliti, það skerpir okkur og gerir okkur betri,“ segir Funi í samtali við mbl.is.
„Það er hlutverk umboðsmanns að finna þá hluti sem þarf að bæta. Við vorum byrjuð áður en skýrslan kom út, út frá þeim athugasemdum sem við höfðum þegar fengið.“
Meðal atriða sem umboðsmaður gerir athugasemdir við í skýrslunni eru „óviðunandi eftirlit með börnum, ófullnægjandi húsnæði og samskiptamöguleikar, heilbrigðisþjónusta, valdbeiting og útivistarkostir“.
Þá eru að mati umboðsmanns ekki nægir möguleikar til að skilja börnin að í neyðarvistun, til að mynda eftir aldri og kyni, ef þess gerist þörf. Þá hafi börnum með geðræn vandamál fjölgað þar undanfarin misseri, en þeim sé komið þar fyrir vegna skorts á viðeigandi úrræðum.
Umboðsmaður fór í þrjár eftirlitsheimsóknir á tæplega 12 mánaða tímabili, en allar heimsóknirnar voru farnar áður en bruninn varð í lok október. Tekið er fram í skýrslunni að ábendingar og tilmæli eigi jafn vel við og áður þrátt fyrir að breytingar hafi verið gerðar á starfseminni í kjölfar brunans.
Neyðarvistun Stuðla gjöreyðilagðist í brunanum, en í kjölfarið var rými fyrir neyðarvistun stúkað af inni á meðferðardeildinni, sem minnkaði því töluvert. Rými á lögreglustöðinni í Flatarhrauni í Hafnarfirði er einnig tímabundið nýtt undir neyðarvistun og fór umboðsmaður líka í heimsókn þangað.
Funi segir að nú þegar hafi verið bætt úr nokkrum atriðum sem gerðar voru athugasemdir við. Til að mynda séu ferlar varðandi vörslu fíkniefna orðnir skýrari og bætt hafi verið úr myndvöktun.
„Það má vera með myndvöktun í sameiginlegum rýmum en svo geta komið upp aðstæður þar sem þarf að fylgjast með börnum inni í einkarýmum, en það þurfa að vera málefnaleg rök fyrir því. Það þarf að rökstyðja það vel af því það er rof á friðhelgi þeirra,“ útskýrir Funi.
„Þá erum við að tala um skilgreininguna gát, þá erum við að fylgjast með barni öllum stundum, en því þarf að vera ljóst að verið sé að gera það. Um leið og það er ekki þörf á því á að hætta því.“
Rýmið sem slík myndvöktun var til staðar í eyðilagðist hins vegar í brunanum í október og er því ekki í notkun í dag.
„En sá möguleiki verður að vera til staðar að við getum haft gát með barni og það er alveg skýrt, af því þau eru stundum í þannig ástandi.“
Hvað varðar börn með geðrænan vanda, sem umboðsmaður bendir á að hafi fjölgað í neyðarvistun, vegna skorts á viðeigandi úrræðum, segir Funi mörg samtöl hafa átt sér stað við heilbrigðisráðuneytið vegna þessa og að eitthvað sé að þokast.
Afeitrunardeild Landspítalans sé til að mynda farin að taka við börnum með geðrænan vanda, sem sé mikil framför. „En við eigum eitthvað í land og það eru skýrar ábendingar í skýrslunni með það,“ viðurkennir hann.
„Ég tek alveg undir, þarna eru sóknarfæri, bæði í samvinnunni og að skilgreina betur hvaða mál eiga heima á hvorum stað. Það hefur verið svolítið þannig að þegar allt annað þrýtur þá hefur neyðarvistun verið endastöðin. Þess vegna hefur þessi vandi komið inn, því það er ekkert annað sem hefur gripið.“
Hann segist ekki geta svarað því af hverju ekki sé annað úrræði til staðar sem grípi þessi börn.
Funi segir töluvert púsl að aðgreina börn í neyðarvistun, en það sé reynt eftir fremsta megni. Rýmið bjóði hins vegar upp á takmarkaða möguleika.
„Blöndunin var inni á neyðarvistun af því rýmið var eins og það. Það var bara hægt að aðgreina upp að ákveðnu marki, en hefði þurft að vera hægt að aðgreina meira.“
Í neyðarvistun eins og er núna eru tvö börn höfð saman. Stúlkur og drengir á sitthvorum staðnum og einnig er raðað saman eftir áhættustigi.
Nú standa yfir endurbætur á neyðarvistuninni eftir að rýmið gjöreyðilagðist í bruna og til stendur að gera breytingar í takt við þá gagnrýni og ábendingar sem fram hafa komið. Þá var það líka upplifun starfsfólks að húsið hafi verið barns síns tíma,
„Það á að reyna að bæta það þannig að verði nútímalegra og að við verðum betur í stakk búin til að mæta þessum fjölbreyttu málum sem við fáum inn á neyðarvistun,“ segir Funi.