Tvær líkamsárásir og þjófnaður úr verslunum

Það var talsverður erill hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld …
Það var talsverður erill hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningar um tvær líkamsárásir í gærkvöld. Einn einstaklingur var handtekinn grunaður um árás og var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins. Þá átti líkamsárás sér stað á skemmtistað í borginni.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu vegna verkefna hennar frá klukkan 17 í gærkvöld til 5 í nótt. Alls eru bókuð 78 mál í kerfum lögreglu á tímabilinu og gista tveir í fangaklefum.

Þrjár tilkynningar bárust um þjófnað í verslunum. Í einu tilvikinu voru tveir einstaklingar stöðvaðir af öryggisvörðum grunaðir um verknaðinn og var annar þeirra unglingur. Einstaklingarnir héldu sína leið eftir skýrslutöku.

Í annarri verslun sem lögregla fékk tilkynningu um þjófnað eru unglingar grunaðir og verður málið unnið með foreldrum þeirra.

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af tveimur einstaklingum sem neituðu að yfirgefa hótel og þá var tilkynnt um bílveltu þar sem bifreið er talin hafa oltið einn hring. Ökumaður og farþegar urðu ekki fyrir meiðslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert