Gert er ráð fyrir að næsta vor muni liggja fyrir hvaða valkostur um legu Sundabrautar verði formlega lagður til. Haustið 2025 verði síðan auglýst viðeigandi breyting á aðalskipulagi í samræmi við þær niðurstöður. Gert er ráð fyrir deiliskipulagsvinnu samhliða ferli vegna aðalskipulagsbreytinga.
Þetta kemur fram á vef innviðaráðuneytisins þar sem fjallað er um stöðu Sundabrautar.
Þar segir einnig að þegar hafi verið lögð mikil vinna í rannsóknir og greiningar vegna mats á umhverfisáhrifum en matsáætlun var kynnt haustið 2023.
„Á þessu ári hefur verið unnið að umfangsmiklum jarðtæknirannsóknum á landi og sjó en þeim rannsóknum að ljúka. Einnig hefur verið unnið áfram að útfærslu valkosta en kostnaðarmat byggir m.a. á niðurstöðum jarðtæknirannsókna,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Bent er á að ráðgjafafyrirtækið Deloitte hafi unnið að gerð viðskiptaáætlunar fyrir Sundabraut. Áætlunin hafi verið unnin samhliða vinnu við umhverfismat en kostnaðarmat mannvirkja byggi m.a. á niðurstöðum þess. Þar sem um samvinnuverkefni sé að ræða verði framkvæmdin fjármögnuð með gjaldtöku af umferð í takt við lög um samvinnuverkefni.
„Áætlanir hafa gert ráð fyrir því að Sundabraut opni árið 2031 og þá verður heimilt að innheimta veggjöld. Sú leið að fjármagna framkvæmdirnar með veggjöldum af umferð tryggir að hún hefur ekki áhrif á aðrar samgönguframkvæmdir sem fjármagnaðar eru beint af ríkinu,“ segir ráðuneytið.
Loks segir að þegar ákvörðun um leiðarval liggi fyrir og hún auglýst sem breyting á aðalskipulagi sé unnt að hefja útborðsferli samvinnuverkefnisins. Tekið er fram að verkefnið verði langstærsta einstaka verkefnið í samgöngukerfi landsins en miðað við fyrirliggjandi kostnaðaráætlanir megi gera ráð fyrir að árleg fjárfesting vegna verkefnisins geti numið á bilinu 20-25 milljarðar króna. Til samanburðar nema heildarframlög til framkvæmda og viðhalds á vegum um 27 milljörðum á fjárlögum fyrir árið 2025.