Bjarni Benediktsson, fráfarandi forsætisráðherra, segir að ný ríkisstjórn boði kerfisbreytingar sem kosti gífurlega fjármuni og útilokað er að framkvæma, miðað við hvernig loforðin eru lögð upp.
„Að fara í Evrópuleiðangurinn og segja það opinberlega að flokkarnir ætli ekki að vera sammála um það mál, heldur bara að framkalla þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og það sé stóra baráttumálið en ekki það að stjórnmálaflokkar verða að hafa stefnu um það hvar Ísland á heima í samskiptum við Evrópusambandið,“ segir Bjarni.
Bjarni ræddi við fjölmiðla fyrir ríkisráðsfund sem hófst klukkan 15 en ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins fundar með forseta klukkan 16.30.
Hann segir mörg sóknarfæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarandstöðu.
„Ég held að það séu mikil tækifæri fyrir stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn sem leggur upp með þessi stefnumál,“ segir hann.
Hann segir að ríkisstjórnin boði gríðarlega útgjaldaaukningu og nefnir breytingarnar sem eru boðaðar á almannatryggingum. Þær snúa að því að almannatryggingar fylgi launavísitölu og þar með einnig launaskriði í landinu.
„Það er gríðarlega mikil kerfisbreyting sem mun kosta ríkissjóð mjög háar fjárhæðir og sömuleiðis þessi boðun á hækkun almannafrítekjumarksins. Hún mun kosta ríkissjóð gríðarlega háar fjárhæðir,“ segir hann.
Sérðu ekki fyrir þér að þetta verði framkvæmanlegt?
„Ekki samkvæmt orðum þeirra sjálfra sem fara fyrir stjórninni, þá er útilokað að þetta geti gengið upp í ríkisfjármálalegu samhengi,“ svarar Bjarni.