Svo gæti farið að um tvö þúsund stuðningsmenn verði á bandi Íslendinga þegar komið verður í milliriðla á HM karla í handknattleik í Zagreb í Króatíu í janúar.
Íslenska liðið telst líklegt til að komast upp úr riðlinum og í milliriðil en íslensku stuðningsmennirnir hafa greinilega trú á því. Miðasalan fer fram í gegnum mótshaldara keppninnar en Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ telur líklegt að Íslendingar muni eiga um 2 þúsund á áhorfendapöllunum í milliriðlinum þótt ekki sé hægt að slá því föstu.
Hægt er að komast til Zagreb bæði með Icelandair og Play. Icelandair býður upp á tvær ferðir vegna keppninnar og þar er um leiki í milliriðli að ræða. Uppselt er í aðra þeirra og fá sæti eftir í hinni. Play mun fljúga þrívegis til Zagreb meðan á keppninni stendur og þar eru laus sæti, miðað við vef félagsins.
„Stemningin fyrir keppninni er gríðarlega góð. Við erum mjög spennt fyrir því að fá allt þetta fólk með okkur og þessi stuðningur sem liðið fær er alveg til fyrirmyndar. Við vonumst eftir góðum árangri,“ segir Róbert.
HSÍ hefur síðustu árin selt landsliðstreyjuna en margir vilja klæðast henni á leikjum. Nýr samstarfsaðili HSÍ, Adidas, sér nú um sölu á landsliðstreyjunni. Róbert telur að treyjan verði fáanleg snemma í janúar.