„Ég verð bara að vera mjög útsjónarsamur“

Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar og nýr fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar og nýr fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eyþór

Daði Már Kristó­fers­son, nýr fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, kveðst þurfa að verða mjög útsjónarsamur til þess að fjármagna útgjaldaloforð nýrrar ríkisstjórnar.

Það á margt að gera, engar skattahækkanir. Hvernig ætlið þið að fjármagna þetta?

„Ég verð bara að vera mjög útsjónarsamur,“ segir Daði í samtali við fjölmiðla fyrir utan Bessastaði er hann gekk inn fyrsta ríkisráðsfund nýrrar ríkisstjórnar.

Daði Már var ekki kjörinn inn á þing en er varaformaður Viðreisnar.

Telur sig ekki vera í lakari stöðu þrátt fyrir að vera utan þings

Hvernig leggst það í þig að koma inn sem ráðherra utan þings, heldurðu að það muni þyngja störf þín að vera ekki þingmaður?

„Nei, ég held nú ekki. Ég hef auðvitað einhverja reynslu af þingstörfum, hef verið varaþingmaður. Þetta leggst vel í mig, það er auðvitað mikil ábyrgð en ég bara auðmjúkur gagnvart þessu verkefni,“ segir Daði.

Hann segir að fyrstu verkefnin verði að kynna sér stöðuna, hitta fólkið í ráðuneytinu og hefja undirbúning á því að framkvæma stjórnarsáttmálann.

Mikill metnaður í stjórnarsáttmálanum

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi stjórnarsáttmálann fyrr í dag og sagði að það væri verið að boða stóraukin ríkisútgjöld.

„Já, það er auðvitað mikill metnaður en það líka kemur skýrt fram í þessum sáttmála að við ætlum að nálgast ríkisfjármálin af mikilli ábyrgð, og meiri ábyrgð en gert hefur verið, til að styðja lækkun verðbólgu og vaxta,“ segir Daði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert