Finnur fyrir þakklæti og auðmýkt

Alma Möller, verðandi heilbrigðismálaráðherra.
Alma Möller, verðandi heilbrigðismálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Alma Möller, verðandi heilbrigðisráðherra, segir það ótrúlega tilfinningu að vera komin í ríkisstjórn. Hún finni fyrir þakklæti vegna traustsins en einnig auðmýkt vegna komandi verkefnis.

Hún er nú mætt á Bessastaði þar sem ný ríkisstjórn fundar með forseta Íslands.

Hvert verður þitt fyrsta verkefni sem heilbrigðisráðherra?

„Það er auðvitað að fara niður í heilbrigðisráðuneytið og kynna mér þau mál sem þar eru í gangi en síðan auðvitað að vinna að stefnumálum ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur,“ segir Alma og heldur áfram:

„Þar eru í forgangi málefni aldraðra, málefni barna og ungmenna, geðheilbrigðismál og fíknisjúkdómar svo dæmi séu nefnd og svo hef ég auðvitað sérstakan áhuga á lýðheilsu.“

„Langt í frá að ég viti allt“

Hún segir heilbrigðisráðuneytið hafa verið hennar óskaráðuneyti enda sé þetta sá málaflokkur sem liggi næst hennar hjarta.

„Ég hef menntun og reynslu sem mun nýtast en geri mér þó grein fyrir að það er langt í frá að ég viti allt, þannig það er á mörgu að hyggja.“

Þá segir hún að fara þurfi vel með það fé sem verði sett í heilbrigðiskerfið en að það sé ljóst að það muni þurfa að gefa í næstu ár.

„Ekki kannski fyrst um sinn því að fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að ná tökum á efnahagsmálum og skapa aukin verðmæti til að við getum staðið undir velferð en það er margt hægt að gera til undirbúnings því sem síðar kemur.“

Verkefnin í takt við fjárhag landsins

Ekki sé búið að greina hvað það allt muni koma til með að kosta sem hún hyggst gera í sínu embætti en nefnir hún að formaður flokksins, Kristrún Frostadóttir, sé þó með excel-skjal með ýmsum tölum.

„En verðmiðin liggur ekki fyrir og auðvitað verða verkefnin í takt við fjárhag landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert