Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður nú í fyrsta skipti óbreyttur þingmaður síðan hún tók sæti á þingi árið 2016. Hún tók við embætti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eftir kosningarnar 2016 og hefur síðan þá setið í ráðherrastól.
„Ég er sjálf að fara í nýtt hlutverk. Þrátt fyrir að vera þingmaður frá árinu 2016 þá hef ég aldrei verið óbreyttur þingmaður. Þannig að það verður mjög áhugavert,“ segir Þórdís Kolbrún í samtali við mbl.is.
„Ég er spennt að sjá hvernig það verður og að máta mig í það. Það er nýtt hlutverk sem reynir á aðra styrkleika hjá manni og ég mun þurfa að finna minn farveg í því,“ segir Þórdís Kolbrún enn fremur.
Spurð hvernig henni lítist á nýja ríkisstjórn segir Þórdís að áhugavert verði að fylgjast með henni. Þá telur Þórdís gott að kona með skilning á öryggis- og varnarmálum taki við utanríkisráðuneytinu, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tekur við embætti utanríkisráðherra.
„Þá er gott að þar sé manneskja sem hefur lagt áherslu á þau [öryggis- og varnarmál] og hefur skilning á þeim. Ég vænti þess að hún muni taka því af mikilli alvöru,“ segir Þórdís Kolbrún.
Þórdís segir fund formanna Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins í Hafnarborg í dag hafa verið mjög almennan. „Við þurfum að sjá betur hvað þær eru raunverulega að leggja til og segja.“
Þórdís segist hafa efasemdir um ýmislegt sem fram komi í stefnuyfirlýsingunni sem kynnt var í dag. Sem dæmi segist hún hafa áhyggjur af áformum nýrrar ríkisstjórnar um að leyfa 48 daga til strandveiða. „Hvaða afleiðingar það kunni að hafa á sjálfbærar veiðar, á kerfið í heild sinni, á verðmætasköpun og rétta hvata.“
Hún óskar nýrri ríkisstjórn góðs gengis. „Ég óska þeim að sjálfsögðu góðs gengis fyrir þjóðina. Það skiptir máli að það sé vandað til verka.“