Inga segir „elsku“ Bjarna vera öfundsjúkan

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, ræddi við fjölmiðla fyrir utan …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, ræddi við fjölmiðla fyrir utan Bessastaði. mbl.is/Eyþór

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að gagnrýni formanns Sjálfstæðisflokksins í garð stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sé sprottin upp úr öfundsýki.

Hún viðurkennir í samtali við fjölmiðla fyrir utan Bessastaði að vissulega hafi Flokkur fólksins ekki náð öllu í gegn sem hann vildi.

Spurð hvort hún hafi fengið meirihlutann af því sem Flokkur fólksins lofaði í kosningabaráttunni segir Inga:

„Við erum að fá mjög mikið, það er alveg óhætt að segja það. Og það er kannski út af því að hjörtu okkar slógu mikið í takt, þær eru allar og við erum öll á þessum línum að hugsa um fólkið okkar sem virkilega þarf á okkur að halda,“ segir Inga.

Fæði, klæði og húsnæði ekki tryggt fyrir jól

Hún segir að hvorki Viðreisn né Samfylkingin hafi sett úrslitakosti í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Kjörorð Flokks fólksins hafa verið fæði, klæði húsnæði. Fá allir það núna?

„Náttúrulega ekki fyrir jólin, þau eru á þriðjudaginn, en við munum gera okkar besta til þess að það sé framtíðin,“ segir hún.

Inga segir að vissulega séu mál sem hún hefði viljað ná í gegn en náði ekki. Spurð hvaða málefni það eru kveðst hún ekki vilja tjá sig um það.

Sendir Bjarna bestu jólakveðjur

Fráfarandi forsætisráðherra gaf þessum stjórnarsáttmála nú ekki góða einkunn, en sagði reyndar að Flokkur fólksins væri að fá mest út úr þessu og þetta væri ekkert nema útgjöldin og vissi ekki á gott.

„Hann er bara öfundsjúkur elsku Bjarni,“ segir Inga kímin og heldur áfram:

„En það er allt í lagi við sendum honum bara bestu jólakveðjur og við eigum eftir að eiga ánægjulegt samstarf með hann í stjórnarandstöðu vænti ég. Þannig ég hlakka bara til að sjá hann hinum megin við borðið.“

Bjarni Benediktsson, fráfarandi forsætisráðherra, fyrir utan Bessastaði.
Bjarni Benediktsson, fráfarandi forsætisráðherra, fyrir utan Bessastaði. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert