Segir Daða hafa ríkt umboð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og verðandi utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og verðandi utanríkisráðherra. mbl.is/Ólafur Árdal

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og verðandi utanríkisráðherra, segir Daða Má Kristófersson, varaformann flokksins og verðandi fjármála- og efnahagsráðherra, hafa ríkt umboð frá flokknum til að taka við embætti fjármálaráðherra. Val hans hafi verið samþykkt á þingflokksfundi og ráðgjafarfundi.

Þetta segir Þorgerður á blaðamannafundi sem haldinn var fyrr í dag þar sem stjórnarsáttmáli og ráðherrar næstu ríkisstjórnar voru kynntir. Þorgerður var spurð hvort það væri veikara fyrir ríkisstjórnina að vera með fjármála- og efnahagsráðherra sem hafi ekki umboð kjósenda.

Hefur yfirburðaþekkingu á sviði efnahagsmála

„Daði Már er í forystu Viðreisnar. Hann er varaformaður Viðreisnar og hefur unnið mjög náið og þétt með mér undanfarin ár og byggt upp flokkinn aftur með mér,“ svaraði Þorgerður Katrín og hélt áfram.

„Hann hefur ríkt umboð frá flokknum. Þetta var samþykkt á þingflokksfundi. Þetta var samþykkt líka á ráðgjafarfundi. Hann er búinn að vera, eins og ég segi, í forystu flokksins.“

Nefndi hún þá að Daði Már hafi setið með verðandi ríkisstjórn þegar samið hafi verið um stjórnarsáttmálann og að hann hafi yfirburðaþekkingu á sviði hagfræði og efnahagsmála.

Þá sé hann auðlindahagfræðingur og telur Þorgerður að hann muni standa sig mjög vel í ábyrgðarfullu embætti.

„Stolt af mínu fólki“

„Þetta er það lið sem við í Viðreisn setjum inn í ríkisstjórnarliðsheildina og það er mjög sterkt lið sem við í Viðreisn erum að bjóða upp á og ég er mjög stolt af mínu fólki.“

Auk Þorgerðar og Daða Más munu, frá Viðreisn, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson einnig sitja í ríkisstjórn. 

Þorbjörg sem dómsmálaráðherra og Hanna Katrín sem atvinnuvegaráðherra. 

Daði Már Kristófersson, verðandi fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson, verðandi fjármála- og efnahagsráðherra. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert