Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við SunnudagsMoggann í dag að rannsóknamiðstöðin á Kárhóli í Reykjadal sé í erfiðri stöðu, þar sem búið sé að gera vísindastarfið sem þar fari fram tortryggilegt út frá öryggispólitískum sjónarmiðum í Bandaríkjunum.
Valur gaf nýverið út bókina Iceland's Arctic Policies and Shifting Geopolitics: Embellished Promise, þar sem hann fer yfir stefnu Íslands í málefnum norðurslóða frá lokum kalda stríðsins og til okkar daga. Í bókinni fjallar Valur meðal annars um samskipti Íslands og Kína á árunum eftir hrun, en hann segir að áhrif Kínverja hér á landi hafi verið ýkt, og að samskipti ríkjanna hafi að miklu leyti verið að frumkvæði Íslendinga og náð hámarki á árunum 2012-2013.
Í bókinni er meðal annars fjallað um rannsóknamiðstöðina á Kárhóli, en bandarísk þingnefnd gerði nýlega athugasemdir við verkefnið og lýsti áhyggjum sínum. Valur segir það vera í samræmi við stefnu bandarískra stjórnvalda um að draga úr áhrifum Kínverja á norðurslóðum óháð því hvort eitthvað sé hæft í því að unnt verði að nota rannsóknirnar í annarlegum tilgangi.
Valur segir að ákveðin pattstaða hafi myndast í stjórnkerfinu hér vegna málsins, þar sem enginn vilji bera pólitíska ábyrgð á Kárhóli vegna hins erlenda þrýstings. Það sé aðallega utanríkisráðuneytið sem hafi haft aðkomu að miðstöðinni, ekki síst vegna þess öryggispólitíska stimpils sem málið hefur fengið. „Í ljósi þess að starfsemin hefur verið öryggisvædd er alltaf hægt að tortryggja rannsóknirnar,“ segir Valur meðal annars í viðtalinu.
Nánar er rætt við Val í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.