Valkyrjustjórn tekur við völdum

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og …
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eyþór

Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins, sem hefur verið nefnd Valkyrjustjórnin, tekur við völdum í dag. Miklar vangaveltur eru uppi um það hverjir taki við ráðherraembættum í nýrri ríkisstjórn en heimildir Morgunblaðsins herma að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar verði forsætisráðherra.

Kristrún fékk stjórnarmyndunarumboðið frá Höllu Tómasdóttur forseta Íslands 3. desember og þann dag ákváðu formennirnir að hefja stjórnarmyndunarviðræður. Á fimmtudag tilkynnti Kristrún að þær Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar væru „búnar að ná saman“.

Í dag munu þingflokkar flokkanna og flokksstofnanir samþykkja tillögur um ráðherraskipan og stjórnarsáttmála sem verður svo í kjölfarið kynnt almenningi klukkan 13 í Hafnarfirði.

Þórunn forseti Alþingis

Heimildir blaðsins herma að Logi Einarsson verði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Ölmu Möller er ætlað að taka við heilbrigðisráðuneytinu og þá er Þórunn Sveinbjarnardóttir sögð líklegust til að verða forseti Alþingis.

Fráfarandi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins fer á ríkisráðsfund á Bessastöðum klukkan 15 og fyrsti ríkisráðsfundur nýrrar ríkisstjórnar á að hefjast klukkan 16.30.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert