„Mér hefur alltaf fundist gaman að dansa og spila bridds,” segir Þórhildur Magnúsdóttir, elsti Íslendingurinn, sem er 107 ára í dag. Glatt var á hjalla og margir mættu í afmælið, sem haldið var á hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík en þar hefur Þórhildur búið síðastliðin þrjú ár.
„Ég horfi alltaf fram á veginn. Oft sagði ég við dætur mínar ef þær voru eitthvað að hjakkast að nú væri bara að líta í sólarátt og upp með munnvikin,“ segir Þórhildur sem enn er vel ern og með allt á hreinu.
Þau Þórhildur og Gústaf Adolf Lárusson eiginmaður hennar, sem lést 2013, áttu sex dætur. Þau bjuggu í Blesugróf í Reykjavík nánast alla sína tíð. Af þessu fólki öllu er mikill ættboginn kominn. „Afkomendurnir voru einhversstaðar nærri 100, síðast þegar talið var,“ segir Þórhildur, glöð í bragði á tímamótum.
Fimm dætur Þórhildar eru á lífi, á aldrinum 74-82 ára. Þær eru allar komnar á eftirlaunaaldur en einnig elsta barnabarnið. Að sögn Jónasar Ragnarssonar, sem heldur út Facebook-síðunni Langlífi, mun það vera sjaldgæft að þrjár kynslóðir séu á eftirlaunaaldri, þ.e. Þórhildur Magnúsdóttir, 107 ára, Ásta Vigdís Gústafsdóttir, 82 ára, og Þórhildur Eggerrtsdóttir, 66 ára.
Að sögn Jónasar er Þórhildur eini núlifandi Íslendingurinn sem er fæddur áður en Ísland varð fullvalda ríki, 1. desember 1918. Þórhildur var 26 ára þegar lýðveldishátíðin var á Þingvöllum 1944 og 55 ára þegar eldgosið í Eyjum hófst í janúar 1973.