Ásmundur Einar Daðason veitti Ásthildi Lóu Þórsdóttur lyklana að mennta- og barnamálaráðuneytinu fyrr í dag. Hann sagði að hann væri ótrúlega ánægður með að Ásthildur væri að taka við ráðuneytinu.
„Ég hlakka mikið til að vinna í þessum mikilvæga málaflokki og veit að ég er að taka við góðu búi,“ sagði Ásthildur við lyklaskiptin.
Ásmundur færði henni bók sem heitir Börn í Reykjavík og sagði Ásthildi að hún væri að fara vinna fyrir mikilvægustu borgara landsins, börnin. Hann óskaði henni velfarnaðar í ráðuneytinu.
„Ég er ótrúlega ánægður með að þú sért að fara inn í þetta ráðuneyti,“ sagði Ásmundur.
Blaðamaður mbl.is var viðstaddur lyklaskiptin og ræddi við Ásmund.
Hvernig er að skilja við ráðuneytið í dag?
„Það er auðvitað tilfinningaþrungið og mér er mjög annt um þessa málaflokka, barnamálin, menntamálin og allt sem lýtur að börnum í íslensku samfélagi. En ég er mjög ánægður með að ég veit að hingað er að koma ástríðufull kona sem brennur fyrir málefnum, með sterka réttlætiskennd og reynslu úr málaflokknum,“ sagði Ásmundur.
Ásmundur náði ekki kjöri inn á þing og nú ætlar hann að eyða tíma með fjölskyldunni um jólin.
Á nýju ári ætlar hann að horfa í kringum sig og vinna að spennandi verkefnum sem tengjast börnum og ungmennum.
„Ef þú hefur gleðina, orkuna og jákvæðnina að leiðarljósi þá koma góðir hlutir til þín,“ segir hann.
Hann segir að hann muni ávallt vera Framsóknarmaður og því sé hann ekki hættur að taka þátt í flokksstarfinu.
Hann stefnir þó ekki á það að bjóða sig fram aftur á Alþingi en hann tók fyrst sæti á þingi árið 2009.
Ásmundur er ritari Framsóknar og mun sinna því embætti þar til Framsóknarmenn halda næsta flokksþing. Hann hyggst hefja „nýtt líf“ að því loknu – viðurkennir að það séu blendnar tilfinningar – og er spenntur fyrir framhaldinu.