Kristrún Frostadóttir er formlega tekin við forsætisráðuneytinu en Bjarni Benediktsson færði henni lyklana að ráðuneytinu nú klukkan 13 í dag.
Sagðist Bjarni viss um að Kristrúnu myndi líða vel í ráðuneytinu og að allir myndu hjálpast að við að vinna í framgangi þeirra mála sem hún myndi beita sér fyrir í.
„Ég auðvitað vonast til þess að þú náir góðum árangri fyrir land og þjóð.“
Þá þakkaði Kristrún fyrrum forsætisráðherranum fyrir þau góðu störf sem hann hefur unnið í ráðuneytinu og fyrri ríkisstjórnum.
Kristrún, sem er 36 ára, er yngsti forsætisráðherra Íslandssögunnar, að því er fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Hún er fædd í Reykjavík 12. maí 1988 og hefur setið á Alþingi frá árinu 2021. Þá hefur hún verið formaður Samfylkingarinnar frá árinu 2022.
Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2008 og með BS-próf í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2011.
Þá er hún með tvö MA-próf, annars vegar í hagfræði frá Boston-háskóla og hins vegar í alþjóðafræði með áherslu á hagstjórn og alþjóðafjármál frá Yale-háskóla.