„Það er gott að takast á við þetta verkefni, ég er mjög spenntur að takast á við það.“
Þetta segir Daði Már Kristófersson, nýr fjármála- og efnahagsráðherra og varaformaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is. Hann tók við lyklunum að fjármálaráðuneytinu í dag.
Þú ert eini ráðherrann sem er utan þings, mun það breyta einhverju fyrir þín störf að vera ekki inni á þingi?
„Ég hef auðvitað verið á þingi sem varamaður og þekki störf þingsins. Það fer auðvitað mikilvæg umræða þar fram sem ég hef ekki sama tækifæri til að taka þátt í eins og þeir sem eru á þinginu. Ég hef hins vegar trú á því að það muni ekki hefta störf mín alvarlega,“ segir Daði.
Daði segir að hagræðing í ríkisstekstri verði forgangsmál hans í ráðuneytinu.
„Hagræðingarmálin eru í fyrsta sæti. Það sem við munum leggja mikla áherslu á er að hefjast handa við hagræðingarverkefni og mitt fyrsta verk verður að setjast niður með starfsfólki ráðuneytisins og byrja að fara yfir þau mál og móta hugmyndir um hagræðingu í rekstri hins opinbera.“
Spurður um það sem kemur fram í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um réttlát auðlindagjöld og hvað felist í þeim segir Daði að þau falli ekki beint undir fjármálaráðuneytið.
„En við getum sagt að eins og samningar eru að jafnaði þá er skipting ágóða af eignum, ef hún er mjög einhliða, ekki réttlát. Dreifðari skipting er þá væntanlega það sem er átt við.“
Spurður hvort það séu komnar hugmyndir um fjárhæð eða prósentu gjaldanna segir Daði að málið snúist meðal annars um að einfalda fyrirkomulag auðlindagjalda.
„Þannig að þetta sé meira skiljanlegt, gegnsætt og byggi á gögnum sem eru meira auðmælanleg. Aðrar útfærslur eru eftir.“