Mörg okkar eiga jólaminningar sem við varðveitum í hjörtum okkar. Morgunblaðið fékk Rán Flygenring rithöfund, Egil Helgason fjölmiðlamann, Breka Karlsson formann Neytendasamtakanna og leikkonuna Kristínu Þóru Haraldsdóttur til að rifja upp eftirminnileg jól.
Rán man vel eftir jólum í tjaldi í Rúanda.
„Eftirminnilegustu jólin hljóta að vera jólin sem við bróðir minn fórum í keilu í Kigali. Við vorum á ferðalagi um Austur-Afríku og eyddum aðfangadagskvöldi í tjaldi í regnskógi Rúanda. Okkur láðist reyndar að lesa smáa letur tjaldleigunnar í þjóðgarðinum þar sem kom fram að gestir skyldu sjálfir útvega helstu nauðsynjar og kom snemma í ljós að tjaldinu fylgdi bara tjald, engin dýna né teppi né ljós né annað sem telst til almennra þæginda. Við bjuggum því um okkur á fatahrúgum, borðuðum hrísgrjón og spiluðum. Þetta var mjög ójólalegt og gaman. Á jóladag var heldur meira veldi á okkur, við fórum í eþíópíska jólaveislu og síðan í keilu, sem væri kannski ekki í frásögur færandi þannig lagað nema fyrir þær sakir að keilusalurinn var ekki rafknúinn heldur voru það hendur sem stungust niður úr þili og reistu föllnu keilurnar við. Það var mjög eftirminnilegt,“ segir Rán.
Egill Helgason man eftir sönnum jólaanda.
„Ég átti hamingjuríka bernsku hjá góðum foreldrum, í góðu hverfi og með góða vini, og þess vegna er ég mikið jólabarn. Af einhverjum ástæðum man ég einna best eftir jólum, kannski var það 1972, rafmagnið var alltaf að fara og það var mikill snjór og allt var fjarskalega jólalegt. Ég og vinur minn vorum að fara út með vörur frá lítilli hornverslun og notuðum til þess skíðasleða. Kannski var þetta erfitt fyrir fullorðna fólkið en dásemd fyrir börnin. Tilfinningin sem situr eftir í mér frá þessum desembermánuði fyrir löngu er held ég hinn sanni jólaandi,“ segir Egill.
Kristín Þóra rifjar upp tvenn eftirminnileg jól.
„Það sem er einna eftirminnilegast frá jólum æsku minnar eru sennilega þau jól sem ég náði að sofna á pelsinum hennar ömmu. Ég hef alltaf farið í messu á aðfangadag. Þegar ég var lítil fórum við systkinin með pabba í Hallgrímskirkju meðan mamma var heima að klára að elda í ró og næði. Þar hittum við ömmu og afa og það var alltaf best að ná sæti við hliðina á ömmu og sofna á öxlinni hennar, ég sökk svoleiðis inn í pelsinn. Það var mikill léttir að vakna við Heims um ból og vita að biðin eftir pökkunum væri nu senn á enda.
Önnur jól sem eru eftirminnileg eru fyrstu jólin sem við Teitur maðurinn minn héldum heima hjá okkur. Hann eldaði kalkún og svo klukkan 18, þegar við byrjum að borða, sé ég að hann er orðin náfölur. Við fengum öll í magann þessi jól en gerðum gott úr málunum, einhverra hluta vegna eru þetta svo eftirminnileg jól því þó allt hafi farið á annan veg en lagt var upp með komu jólin nú samt,“ segir Kristín.
Breki rifjar upp jól í Mexíkó.
Eftirminnilegustu jólin voru löngu fyrir tíma fastra skorða. Á námsárum okkar bjuggum við hjónin í Mexíkó og á aðfangadagskvöld var okkur boðið í jólaboð til vinafjölskyldu. Við gerðum okkur fín eftir kúnstarinnar reglum, fórum í okkar fínasta púss og lögðum tímanlega af stað til þess að vera komin vel fyrir klukkan 18, áður en allt yrði „heilagt“. Þegar við bönkuðum upp á var allt á tjá og tundri á heimili vina okkar og heimilisfólkinu brá við að sjá okkur svona snemma. Eitthvað hafði misfarist í samskiptunum, því jólahaldið og -máltíðin hófst ekki fyrr en á miðnætti. Okkur var komið fyrir í stofunni og fengum agave-safa á meðan heimilisfólkið gerði sig og heimilið klárt. Við höfðum lítið borðað um daginn og vorum því orðin ansi svöng þegar á miðnætti jesúbarninu var skellt í litla jötu sem var á arinhillunni innan um vitringa, hirðingja, Maríu og Jósef. Þá fyrst hófst „Nochebuena“, hin helga nótt, og hægt að taka til matar síns. Og þvílíkur dýrindis málsverður: Bacalao, saltfiskréttur með ólífum, tómötum og chili, og tamales sem er gufusoðið maísdeig pakkað inn í bananalauf og fyllt með annaðhvort kjöti eða baunum. Sjaldan hef ég verið jafn svangur fyrir nokkra máltíð og aldrei eins saddur og eftir þessa máltíð. En að henni lokinni var skipst á gjöfum og spjallað saman inn í nóttina.
Í Sunnudagsblaði helgarinnar svara þau fleiri skemmtilegum jólaspurningum.