Við Nína Dögg Filippusdóttir mætumst fyrir utan Þjóðleikhúsið einn fallegan vetrardag í vikunni og drífum okkur inn í hlýjuna til að spjalla um leiklistina og lífið. Vart þarf að kynna Nínu, en hún hefur fest sig í sessi sem ein ástsælasta leikkona landsins, ekki síst í óvenjulegum uppfærslum á sviði og í sjónvarpsþáttum Vesturports. Skemmst er að minnast Verbúðarinnar sem sló eftirminnilega í gegn hjá þjóðinni.
Það er í nógu að snúast nú fyrir jólin og stutt í frumsýningu á jólaleikriti Þjóðleikhússins, Yermu, þar sem Nína leikur aðalhlutverkið. Hún segist hlakka til að halda jól með sínum nánustu, stíga á fjalirnar og eyða svo áramótunum í New York með eiginmanninum Gísla Erni og börnunum tveimur. Ekki er spennan minni fyrir frumsýningu á sjónvarpsþáttum um Vigdísi forseta en fyrsti þáttur er á nýársdag. Þar leikur Nína frú Vigdísi sem var fyrirmynd hennar í æsku en er í dag kær vinkona.
Nína var snemma farin að stíga á svið en strax sem lítið barn setti hún upp leiksýningar með vinkonum sínum. Hún segist þó hafa ætlað sér að verða fleira en leikkona.
„Ég ætlaði að verða ljósmyndari, leikari eða forseti, en ég fann einmitt um daginn gamla minningabók þar sem stóð að ég vildi verða forseti. Það sýnir hvað Vigdís hafði mikil áhrif, en ég var sex ára þegar hún varð forseti og var orðin ung kona þegar hún hætti.“
Nína fær nú loks að prófa að vera forseti, að minnsta kosti að stíga inn í það hlutverk sem leikkona í þáttunum um Vigdísi.
„Mér fannst algjörlega magnað að hitta hana og hún tók á móti mér með faðmlagi. Það er svo margt sem tengir okkur. Það er djúp tenging inn í leikhúsið en hún var auðvitað fyrsta konan til að vera leikhússtjóri, hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Það vantaði ekki umræðuefni,“ segir hún.
„Svo tengjust við á enn dýpri hátt en við höfum báðar misst bræður okkar og við gátum rætt það strax sem var hjartnæmt og fallegt. Bróðir hennar drukknaði þegar hún var ung og ég missti bróður minn, Sigurjón Brink, árið 2011. Báðar upplifðum við að missa bræður okkar snögglega, án aðdraganda.“
Upphaflega hugmyndin, sem kviknaði fyrir um sjö eða átta árum, var að gera kvikmynd um líf og störf Vigdísar en síðar var ákveðið að búa til sjónvarpsþætti. Rakel Garðarsdóttir og Ágústa Ólafsdóttir eru framleiðendur og eru þættirnir fjórir.
„Við byrjum söguna þegar Vigdís er í menntaskóla og endum þegar hún verður forseti. Elín Hall leikur hana unga og ég leik hana gamla,“ segir hún og brosir.
„Elín er alveg stórkostleg og þær eru sláandi líkar ef maður skoðar myndir af Vigdísi á þessum aldri. Það er eiginlega með ólíkindum,“ segir Nína.
„Vigdís hefur verið með okkur í þessu verkefni frá upphafi og við erum svo heppnar að fá að fara í ótal kaffiboð til hennar. Við höfum átt margar góðar stundir á Aragötunni og í hádegismat í Norræna húsinu,“ segir Nína og finnst gaman að geta sagst vera vinkona Vigdísar.
„Vigdís lánaði okkur líka föt sem við klæddumst í þáttunum. Hennar eigin föt!“
Nína naut þess mjög að leika Vigdísi sem hún ber ómælda virðingu fyrir. Þegar hún var í tökum í Iðnó, að leika hana sem leikhússtjóra, mætti Vigdís á settið og verður sú minning varðveitt að eilífu í huga Nínu.
„Ég var nýfarin úr kápunni hennar, sem hún var alltaf í á þessum tíma og sér ekki á, hugsaðu þér! Hún gekk inn í rýmið; í gamla leikhúsið sitt, og ég var þar að leika hana. Ég var með gæsahúð og þurfti að taka á öllu mínu til að fara ekki að gráta; ég var í svo mikilli geðshræringu. Hún sat svo þarna og horfði á okkur leika senu uppi á sviði. Þetta var algjörlega mögnuð og ævintýraleg stund,“ segir Nína.
„Ég náði að halda aftur af tárunum en þegar dagurinn var búinn þá bara féllu tárin.“
Hvernig nálgaðist þú hlutverkið?
„Ég ákvað strax að vera ekki að herma eftir henni heldur að tileinka mér frekar hennar mannkosti. Hún býr yfir mikilli mildi og það er svolítill fjörkálfur í henni. Hún er hnyttin, skemmtileg og fyndin.“
Verður framhald?
„Tja, það er alla vega nóg efni eftir! Og Vigdís á svo mikið af gömlu fötunum sínum,“ segir Nína og hlær.
Ítarlegt viðtal er við Nínu Dögg í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.